Rannsóknir á sumarexemi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:05:52 (1843)

2002-11-28 12:05:52# 128. lþ. 38.10 fundur 318. mál: #A rannsóknir á sumarexemi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:05]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir mikilvægi þess verkefnis sem verið er að vinna á Keldum þar sem reynt er að vinna að bóluefni gegn hrossaexemi sem hefur valdið gríðarlegum skaða í útflutningi á íslenskum hrossum. Ef tekst að finna bóluefni væri náttúrlega komin varanleg lausn á þessu vandamáli.

En ég verð að segja að komist hefur á kreik orðrómur um eða mér hefur alla vega verið sagt að hægt væri að gera næmipróf á hrossum þannig að hægt væri að finna út hvaða hross væru sérstaklega næm fyrir þessum sjúkdómi og að einn íslenskur dýralæknir, í samstarfi við þennan prófessor Leibold gæti komið á slíku næmiprófi. Mér finnst mjög mikilvægt að leita þá samstarfs líka við þessa aðila og nota þetta næmipróf þangað til fullnægjandi lausn er fundin.