Barnabætur

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:12:17 (1846)

2002-11-28 12:12:17# 128. lþ. 38.11 fundur 145. mál: #A barnabætur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:12]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Eitt af því sem skilur Ísland frá Norðurlöndum hvað félagslegan stuðning snertir er lítill stuðningur við fjölskyldur og þá sérstaklega barnafólk. Manni hnykkir við þegar maður kynnist kjörum ungs barnafólks sem leggur mikið á sig í vinnu til að geta staðið undir afborgunum bæði af námslánum og húsnæði auk þess að borga mjög há vistunargjöld fyrir börnin sín þar sem yfirleitt ekkert tillit er tekið til fjölskyldutekna.

Að sumu leyti er staðan mun verri en þegar mín kynslóð var að ala upp börn. Þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp var landsmönnum sagt að við álagningu yrði ekki tekið tillit til framfærslu barna en í stað þess yrði barnafólki greiddar bætur sem kæmu þá í stað skattfrádráttar vegna barna. En einhvern veginn hefur farið svo að þessar barnabætur hafa stöðugt verið undir hnífnum og er nú svo komið að óskertar barnabætur sem hjón hafa með einu barni eru 9.750 kr. á mánuði og með hverju barni fram yfir það 11.500 kr. á mánuði. Þetta eru, nota bene, óskertar bætur sem greiðast til fjölskyldna með undir 1.350 þús. kr. í árstekjur.

Vegna hærri tekna kemur hins vegar skerðing og hún engin smásmíði þannig að ef hjón með tvö börn, fimm og tíu ára, hafa samanlagt 2,3 millj. í árslaun, sem verða nú að teljast mjög lágar tekjur fyrir fólk með slíka framfærslu, er skerðingin strax orðin 3.750 kr. á mánuði.

Það væri fróðlegt að frétta af því nú þegar ríkisstjórnin hefur fengið það margstaðfest að fjöldi barnafólks með lág laun er í miklum greiðsluerfiðleikum, hvort hún ætli ekki að breyta þessum barnabótum til hagsbóta fyrir barnafólk. Það er líka ótrúlegt að barnabætur skuli ekki vera greiddar til fólks, jafnvel þótt það eignist þríbura fyrri hluta ársins, fyrr en árið eftir, þ.e. frá febrúar, og að fyrsta árið sem er foreldrunum mjög kostnaðarsamt að öllu jöfnu skuli liggja óbætt hjá garði. Þetta fyrirkomulag var tekið upp fyrir þremur árum að mér er tjáð og því vil ég beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

1. Hvers vegna eru barnabætur ekki greiddar út strax eftir fæðingu barna?

2. Er ráðherra reiðubúinn til að beita sér fyrir breyttu fyrirkomulagi barnabótagreiðslna?