Barnabætur

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:15:11 (1847)

2002-11-28 12:15:11# 128. lþ. 38.11 fundur 145. mál: #A barnabætur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:15]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mun ekki elta ólar við það sem fram kom í inngangi hv. þm. í fyrirspurn hennar. Þar tel ég að hafi mjög verið hallað réttu máli að því er varðar stöðu ungs fólks á Íslandi almennt talað, hvort sem er til húsnæðisöflunar, fjármögnunar lána, náms eða annarra þátta sem þar komu við sögu. En ég ætla að svara spurningunum.

,,Hvers vegna eru barnabætur ekki greiddar út strax eftir fæðingu barna?``

Það er vegna þess að samkvæmt lögum eru barnabætur ákveðnar við álagningu skatts sem fer fram 1. ágúst ár hvert. Barnabætur eru enn fremur tekjutengdar að stórum hluta og því er ekki vitað fyrr en í árslok hvað viðkomandi forráðamaður hefur haft í tekjur. Af þessum sökum er ekki hægt að greiða þær út fyrr en þær upplýsingar liggja fyrir, sem er þá á gjaldárinu eftir að teknanna er aflað.

Hins vegar er þetta kannski ekki aðalatriðið. Alls staðar þar sem einhver tímamörk eru, hvort sem það er við skólaár eða annars staðar þar sem miða þarf við mörk í tíma koma skil. Kjarni málsins er náttúrlega sá að allir sem eiga rétt á barnabótum fá þær í full 16 ár hvort sem barnið fæðist undir lok árs og greiðslur byrja að berast í febrúar eða hvort barnið fæðist snemma árs og greiðslur berast í febrúar ári síðar. Hvernig sem því háttar til þá fá allir þessar greiðslur í full 16 ár. Þannig er það t.d. núna. Á árinu 2002 eru greiddar bætur með börnum sem fædd eru á tímabilinu 1986--2001 og á næsta ári, frá 1987--2002. Það er aðalatriðið. Það fá allir þetta í 16 ár. En það er ekki hægt að koma framkvæmdinni þannig fyrir, meðan barnabætur eru að einhverju leyti tekjutengdar, öðruvísi en að bíða eftir því að það liggi fyrir með skattframtali hverjar tekjur viðkomandi forráðamanna eru.

Þetta er svarið, herra forseti, og með vísan til þessara upplýsinga liggur í hlutarins eðli að það er ekki mögulegt að haga útgreiðslu og ákvörðun öðruvísi en nú er gert. Þar með er seinni hluta spurningarinnar svarað, þ.e. hvort ég sé tilbúinn að beita mér fyrir breyttu fyrirkomulagi á þessum greiðslum. Ég tel að það sé ekki hægt.