Kostnaðarþátttaka Tryggingastofnunar við meðferð psoriasissjúklinga

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:34:55 (1854)

2002-11-28 12:34:55# 128. lþ. 38.13 fundur 368. mál: #A kostnaðarþátttaka Tryggingastofnunar við meðferð psoriasissjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:34]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Psoriasis er sjúkdómur af því tagi að læknar vita að eftir að hann kemur upp hjá sjúklingum verður hann ekki læknaður að fullu heldur er einungis hægt að halda sjúkdómnum niðri með sérstökum meðferðum sem að vísu eru til fleiri en ein. Rétt er að geta þess að áhrif þessa sjúkdóms geta verið allalvarleg á starfsgetu sjúklinganna og meðferð er oft með þeim hætti að hún er kostnaðarsöm, tímafrek og kostar fjarvistir frá vinnu og heimili meðan á henni stendur.

Tölum ber ekki saman um fjölda psoriasis-sjúklinga á Íslandi en nokkuð er ljóst að fjöldi þeirra sem hafa sjúkdóminn á alvarlegu stigi er um sex þúsund Íslendingar og álitið er að um það bil þrjú þúsund Íslendingar til viðbótar hafi þennan sjúkdóm á vægari stigum en þarfnist samt réttra viðbragða. Það skiptir miklu, þegar litið er til fyrirhafnar og hversu kostnaðarsamt er fyrir þetta fólk að fá meðferð sem þessi sjúkdómur krefst, að kostnaðarþátttaka Tryggingastofnunar ríkisins, almannatrygginga sem við öll berum sameiginlega, sé með þeim hætti að sjúklingar fari jafnir frá kostnaði af sjúkdómnum og meðferð við honum. Þess vegna legg ég fram fyrirspurn til heilbrrh. um kostnaðarþátttöku Tryggingarstofnunar ríkisins við meðferð psoriasis-sjúklinga með þessari spurningu:

Hver er þátttaka Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði sjúklinga, að dagpeningum meðtöldum, í meðferð við psoriasis, og er tryggt að kostnaður umfram þátttöku stofnunarinnar sé jafn hvar sem þeir fá slíka meðferð?

Ég tel, herra forseti, að rétt sé að geta þess sérstaklega varðandi síðasta lið spurningarinnar að þær þrjár meðferðir sem hér þekkjast eru ólíkar, fara fram á ólíkum stöðum, ein þeirra erlendis og hinar tvær á gjörólíkum innlendum stofnunum.