Kostnaðarþátttaka Tryggingastofnunar við meðferð psoriasissjúklinga

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:37:04 (1855)

2002-11-28 12:37:04# 128. lþ. 38.13 fundur 368. mál: #A kostnaðarþátttaka Tryggingastofnunar við meðferð psoriasissjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:37]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykn. spyr um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði sjúklinga við psoriasis-meðferð.

Greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar í meðferð psoriasis-sjúklinga getur verið með margvíslegum hætti og tekur mið af þeirri þjónustu sem veitt er hverju sinni í samræmi við lög, reglugerðir og reglur þar um. Hvað varðar heimsóknir til sérfræðilækna, þá greiða psoriasis-sjúklingar sama gjald og aðrir sjúkratryggðir fyrir heimsóknir til sérfræðilækna, samanber reglugerð nr. 218/2002, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum. Fyrir viðtal hjá húðlækni þarf almennur sjúklingur sem ekki hefur náð afsláttarkorti að greiða 2.124 kr.

Hvað lyfjakostnað varðar greiða psoriasis-sjúklingar fyrir lyf á sama hátt og aðrir sjúkratryggir, samanber reglugerð nr. 9/148 frá 2000, um greiðslur almannatrygginga í lyfjakostnaði, með síðari breytingum. Um greiðslur fyrir ljósaböð gildir reglugerð nr. 660/1998, um greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir meðferð húðsjúkdóma, veitta af öðrum en læknum, samanber reglugerð 137/2002. Um er að ræða tvenns konar meðferðaraðila. Í fyrsta lagi sérstakar göngudeildir fyrir meðferð húðsjúkdóma undir eftirliti lækna og er þá meðferðin greidd að fullu af Tryggingastofnun ríkisins. Í öðru lagi sérstakar göngudeildir sem hlotið hafa viðurkenningu heilbr.- og trrn. á því að meðferð sé veitt undir sérstöku eftirliti sérfræðinga í húðsjúkdómum þar sem einungis ljóstækjum með stillanlegu geislamagni er beitt. Slík meðferð er greidd af Tryggingastofnun ríkisins en þó er heimilt að innheimta gjald af sjúklingi fyrir hverja meðferð, 200 kr. fyrir B- og A-geisla með eða án smyrsla og 300 kr. fyrir PUVA meðferð.

Um greiðsluþátttöku vegna meðferðar í Bláa lóninu gilda reglur nr. 305/1998, um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í meðferð psoriasis- og exemsjúklinga. Samkvæmt reglunum er meðferð greidd að fullu en sjúklingar bera sjálfir kostnað við ferðir vegna meðferðarinnar. Möguleiki er á dvöl á sjúkrahóteli en þar þurfa sjúklingar að greiða fæðisgjald, sem nú er 700 kr. á dag.

Í gildandi samningi heilbrigðisyfirvalda við Bláa lónið er gert ráð fyrir 222 sjúklingum á ári þar sem fjöldi meðferðarskipta er 23 að meðaltali hjá hverjum sjúklingi.

Að síðustu er rétt að benda á að beri meðferð hér á landi ekki árangur og sjúklingi því brýn nauðsyn á að vistast á erlendu sjúkrahúsi eða meðferðarstofnun er unnt að sækja um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna slíkrar meðferðar, skv. 35. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993. Í þeim tilvikum er greiðsluþátttaka sjúkratrygginga hin sama og vegna annarra sjúklinga sem þurfa að leita sér læknismeðferðar erlendis þegar ekki er hægt að veita nauðsynlega hjálp hér á landi, þ.e. kostnaður við sjúkrahúsdvöl, læknishjálp, lyf og ferðir er greiddur að fullu auk dagpeninga fyrir þann tíma sem sjúklingur er ekki inniliggjandi á sjúkrahúsi, samanber reglugerð nr. 827/2002, reglugerð um ferðastyrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna brýnnar sjúkdómsmeðferðar erlendis.

Þess má geta að það sem af er árinu hefur utanfararnefnd Tryggingastofnunar, í daglegu tali kölluð siglinganefnd, samþykkt svokallaða loftslagsmeðferð erlendis fyrir sjö sjúklinga. Eins og ég gat um í upphafi bjóðast psoriasis-sjúklingum fjölbreytileg meðferðarúrræði og er það vel. Að sama skapi er þátttaka ríkisins í meðferðarkostnaði sjúklinga mismunandi eftir því um hvaða þjónustu er að ræða.

Í upphafi þessa árs skipaði ég nefnd sem falið var að fara yfir ýmislegt er varðar sérstakar aðstæður psoriasis- og exemsjúklinga. Nefndin er skipuð að frumkvæði Spoex, samtaka þeirra sem hafa þessa sjúkdóma. Í nefndinni eiga sæti fulltrúi Spoex, landlæknisembættisins, Tryggingastofnunar ríkisins og Félags íslenskra húðlækna. Nefndin hefur farið yfir margvísleg mál sem varða sérstöðu þessa sjúklingahóps og hyggst skila mér tillögum sínum innan fárra vikna. Þegar ég hef fengið þær í hendur verða teknar ákvarðanir um hvort bæta megi aðstæður þessa hóps.