Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 14:05:30 (1859)

2002-11-28 14:05:30# 128. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÓÖH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Ólafur Örn Haraldsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú við upphaf atkvæðagreiðslunnar vil ég nefna að fjárlagafrv. sem hér verða greidd atkvæði um ber með sér ábyrga stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Eftir skammvinna og grunna lægð í efnahagslífinu horfum við nú fram á betri tíma með auknum hagvexti og stöðugleika sem mun bæta kjör almennings í landinu. Ég vek sérstaka athygli á þeim miklu framlögum sem nú eru til menntamála og velferðarmála og þar eru framlögin hvað mest til heilbrigðismála, málefna aldraðra og fatlaðra. Með þessu kemur glögglega fram stefna ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum jafnframt því að gefa atvinnulífinu frelsi til athafna og eflingar.

Þá vil ég, virðulegi forseti, sérstaklega benda hv. þingmönnum á glettni fjárln. sem kemur fram á bls. 21 en þar segir: ,,Framlög samkvæmt kjarasamningum til að bæta kjör þeirra sem lakast eru settir.`` Þar kemur síðan langur listi og efst er embætti forseta Íslands.