Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 14:06:56 (1860)

2002-11-28 14:06:56# 128. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., JB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú er fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar að koma til atkvæðagreiðslu við 2. umr. Við afgreiðsluna í dag er fyrst og fremst verið að greiða atkvæði um gjaldahlið frv. og tekjuhliðina eins og hún var lögð fram í upphafi en eins og allir vita verða við 3. umr. greidd atkvæði um teknahliðina í heild sinni og fjárlagafrv. í heild.

Meiri hlutinn í fjárln. hefur lagt fram allnokkrar brtt. við frv. til fjárlaga og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munum styðja þær einstöku tillögur sem okkur þykir horfa til bóta og vera til jöfnunar og auka þátt þeirra sem við viljum styrkja í samfélaginu.

Við munum einnig sitja hjá við þær tillögur sem við viljum vísa algerlega á ábyrgð og hendur ríkisstjórnarinnar og munum við greiða atkvæði gegn þeim tillögum sem hér eru lagðar til sem ganga þvert gegn stefnumiðum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa flutt allnokkrar brtt. við frv. sem er ætlað að taka á allra veikustu þáttum í því sem meiri hlutinn leggur fram. Við vonumst til að þær breytingar fái gott brautargengi. Einstakar tillögur geta þó verið kallaðar til baka til 3. umr. eftir atvikum.

Ljóst er, virðulegi forseti, að enn þá vantar veigamikla liði inn í gjaldahlið frv. Eftir er að færa þar inn niðurstöðutölur og útfærslur á samningi við Landssamband eldri borgara. Einnig eru liðir sem lúta að ákveðnum þáttum í heilbrigðisþjónustu og fleiru sem við vonumst til að tekið verði formlega á fyrir 3. umr.

Virðulegi forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munum sitja hjá við lokaafgreiðslu fjárlagafrv. við 2. umr. og vísa ábyrgð á því í heild sinni á meiri hluta Alþingis, þess sem hefur staðið og ráðið ferð við fjárlagagerðina.