Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 15:32:39 (1884)

2002-11-28 15:32:39# 128. lþ. 39.3 fundur 248. mál: #A viðurkenning á menntun og prófskírteinum# (EES-reglur) frv., Frsm. GunnB
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með síðari breytingum.

Tilgangur frv. er að koma í framkvæmd hér á landi tilskipun Evrópusambandsins nr. 2001/19/EB sem lýtur að einföldun á gildandi reglum um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og prófskírteinum sem m.a. koma fram í tilskipunum Evrópusambandsins nr. 89/48/EBE og 92/51/EBE. Með innleiðingu tilskipunarinnar er jafnframt verið að samræma ákvæði á þessu sviði og skýra frekar atriði sem hafa þótt óljós.

Tilgangur þessara tilskipana er að auðvelda frjálsan flutning ríkisborgara innan Evrópska efnahagssvæðisins sem óska eftir því að stunda starf sitt í öðru landi en því sem þeir hlutu menntun sína og starfsþjálfun í. Framkvæmd framangreindra tilskipana hefur þannig auðveldað íslenskum ríkisborgurum að fá heimild til að starfa í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Undir nál. rita Gunnar Birgisson, formaður og framsögumaður, Ólafur Örn Haraldsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir.