Safnalög

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 15:35:48 (1886)

2002-11-28 15:35:48# 128. lþ. 39.8 fundur 393. mál: #A safnalög# (safnaráð, verkefni höfuðsafna o.fl.) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 128. lþ.

[15:35]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á safnalögum, nr. 106/2001.

Í fyrsta lagi er lagt til í 1. gr. frv. að orðin ,,söfnum í eigu ríkisins og`` í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. safnalaga falli brott.

Í upphaflegu frv. menntmrh. til safnalaga, sem varð að lögum nr. 106/2001, var gert ráð fyrir því í 2. mgr. 2. gr. að í safnaráði sætu fulltrúar sem ekki hefðu nein tengsl við höfuðsöfn eða söfn í eigu ríkisins. Því safnaráði var m.a. ætlað að hafa eftirlit með söfnum í eigu ríkisins. Áður en frv. var samþykkt sem lög frá Alþingi var gerð sú breyting að forstöðumenn höfuðsafna fengu sæti í safnaráði. Eftirlitshlutverki safnaráðs var ekki breytt til samræmis við þessa breytingu en skv. 3. gr. safnalaga hefur ráðið m.a. eftirlit með söfnum í eigu ríkisins. Hér er lögð til sú breyting á 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna að orðin ,,söfnum í eigu ríkisins og`` falli brott. Ástæðan er sú að forstöðumenn höfuðsafna, sem öll eru í eigu ríkisins, bera ábyrgð á starfsemi safna sinna gagnvart ráðherra í samræmi við lög sem um söfnin gilda og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Því er það í andstöðu við þá skipan að fela safnaráði sérstakt eftirlitshlutverk gagnvart höfuðsöfnunum.

Í öðru lagi eru í 2. gr. frv. þessa lagðar til orðalagsbreytingar í 2. málsl. 4. mgr. og 2. málsl. 5. mgr. 5. gr. safnalaga þar sem í þeim er ekki samræmi milli höfuðsafna hvað verkefni og verksvið snertir. Samkvæmt lögunum er Þjóðminjasafn Íslands höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu, Listasafn Íslands höfuðsafn á sviði myndlistar og Náttúruminjasafn Íslands höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Með breytingunni er tekið mið af skilgreiningunni á söfnum samkvæmt 4. gr. laganna og er nauðsynlegt að hún endurspeglist einnig í upptalningu á verkefnum höfuðsafnanna. Um hlutverk Listasafns Íslands er kveðið á í lögum nr. 58/1988 og miðast brtt. einnig við efni þeirra. Rannsóknarþátturinn skv. 4. gr. safnalaga er þó ekki í upptalningu á hlutverki Náttúruminjasafns Íslands til að hlutverk þess rekist ekki á við hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá nær breytingin einungis til gripa sem eru í eigu Náttúruminjasafns Íslands en ekki til vísindasafna Náttúrufræðistofnunar Íslands eða starfsemi sem tengist þeim söfnum.

Að lokum er lagt til í 3. gr. frv. að heimild verði sett í lögin til að greiða útgjöld vegna starfsemi safnaráðs úr safnasjóði. Greiða þarf nefndarlaun, fargjöld fyrir ráðsmenn sem búa utan höfuðborgarsvæðis, þóknun vegna umsýslu og fleira.

Herra forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn. og til 2. umr.