Vátryggingastarfsemi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 15:55:57 (1890)

2002-11-28 15:55:57# 128. lþ. 39.6 fundur 377. mál: #A vátryggingastarfsemi# (EES-reglur, gjaldþol) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, sem er 377. mál þingsins á þskj. 429.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frv. er um að ræða breytingar á ákvæðum laganna er varða gjaldþrot vátryggingafélaga og byggjast á tilskipun nr. 2002/12/EB um lágmarksgjaldþol líftryggingafélaga, og tilskipun nr. 2002/13/EB um lágmarksgjaldþol skaðatryggingafélaga.

Með gjaldþoli vátryggingafélags er átt við eign þess að frádregnum fyrirsjáanlegum skuldum og skuldbindingum, þar á meðal vátryggingaskuld og er gjaldþol þannig mælikvarði á fjárhagslegan styrk vátryggingafélags. Öll vátryggingafélög hafa skuldbindingar gagnvart vátryggingatökum og vátryggðum. Til þess að mæta slíkum skuldbindingum setja vátryggingafélög fé til hliðar, svokallaða vátryggingaskuld. Þar sem vátryggingastarfsemi er áhættustarfsemi geta ófyrirséðir hlutir gerst. Bótakröfur geta reynst hærri en gert er ráð fyrir eða fjárfestingar verið óarðbærar. Þetta getur leitt til þess að vátryggingaskuld vátryggingafélags nægi ekki fyrir bótakröfum. Gjaldþoli er þannig ætlað að tryggja aukið fjármagn til að mæta ófyrirséðum atvikum og vernda þannig réttindi þeirra sem eiga kröfur á hendur félaginu.

Ákvæði um gjaldþol eru í 29.--33. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Ákvæði um eftirlit með gjaldþoli eru í 54. gr. laganna og ákvæði um ráðstafanir vegna ófullnægjandi gjaldþols eru í 90. gr. Í frv. þessu eru lagðar til breytingar á framantöldum greinum. Breytingarnar eru til þess að lögfesta ákvæði hinna nýju tilskipana. Einnig er lagt til að tekin verði upp í lögin fáein ákvæði reglugerðar nr. 494/1997, um eignir sem telja má til gjaldþols vátryggingafélaga. Jafnframt eru gerðar nokkrar breytingar á þeim ákvæðum í samræmi við ákvæði tilskipana.

Mun ég nú, herra forseti, víkja að frv. sjálfu.

Í 1. gr. er lagt til að ný grein komi í stað 29. gr. laganna en í þeirri grein er gjaldþol skilgreint ásamt aðlöguðu gjaldþoli. Eins og fyrr segir er gjaldþol mælikvarði á fjárhagslegan styrk vátryggingafélags. Gjaldþol getur verið hið sama og eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi en kveðið er á um ákveðin frávik, sum til lækkunar en önnur sem geta valdið því að gjaldþol verði hærra en eigið fé. Endanlegt mat á gjaldþoli er á hendi Fjármálaeftirlitsins sem hefur heimild til að víkja frá mati félagsins sjálfs eins og það er sýnt í ársreikningi.

Útreikningur á gjaldþoli byggist á 12 liðum sem taldir eru upp í greininni.

Í 2. gr. frv. er lögð til ný 30. gr. þar sem er fjallað um lágmarksgjaldþol skaðatryggingafélaga. Lágmarksgjaldþol ræðst af hinum hærri af tveimur liðum sem reiknaðir eru hvor fyrir sig, annar út frá iðgjöldum en hinn út frá tjónum. Gerðar verði meiri kröfur en áður vegna ábyrgðartrygginga, með þeim hætti að iðgjöld og tjón í tilteknum greinaflokki eru hækkuð um 50% þegar lágmarksgjaldþol er reiknað. Þetta á þó ekki við um iðgjöld og tjón í ábyrgðartryggingum ökutækja.

Lækki lágmarksgjaldþol á milli ára skal lækkunin ekki vera meiri en sem nemur lækkun eigin tjónaskuldar. Breyting þessi verður til þess að lágmarksgjaldþol lækkar ekki jafnhratt og iðgjöld þegar dregur úr starfsemi vátryggingafélags.

Ákvæði um lágmarksgjaldþol vegna sjúkratrygginga sem reknar eru samkvæmt tæknilegum reiknigrundvelli hefur verið í reglugerð en lagt er til að það verði tekið óbreytt inn í lögin.

Í 3. gr. er lögð til ný 31. gr. sem fjallar um lágmarksgjaldþol líftryggingafélaga. Það er reiknað fyrir hvern greinaflokk líftrygginga fyrir sig og síðan lagt saman.

Í 4. gr. frv. er lagt til að 32. gr. laganna verði felld brott en ákvæði hennar flutt í 90. gr., sbr. 7. gr. frv. en ákvæðin eiga betur heima í þeirri grein.

Í 5. gr. er lagt til að tekin verði upp ný 33. gr. þar sem kveðið verði á um lágmarksfjárhæð gjaldþols. Lágmarksfjárhæðirnar eiga við óháð því hvað kemur út úr útreikningum skv. 30. og 31. gr. Þannig kveður greinin í reynd á um lágmarksstærð vátryggingafélaga hvað fjárhagsstyrk varðar. Helsta breytingin er að fjárhæðir eru hækkaðar verulega og er meginástæðan sú að fjárhæðir hafa ekki verið hækkaðar frá því að tilskipanirnar tóku fyrst gildi upp úr 1970. Lagt er til að fjárhæðir þessar taki árlegum breytingum eftir samræmdri vísitölu neysluverðs í aðildarríkjum EES og að nánari ákvæði verði sett um það í reglugerð.

Í 6. gr. frv. er lögð til breyting á 1. mgr. 54. gr. laganna þar sem kveðið er á um að Fjármálaeftirlitið skuli kanna gjaldþol vátryggingafélaga. Tekin verði inn í lögin bein heimild eftirlitsstjórnvalda til að lækka mat gjaldþolsliða frá mati félagsins sjálfs. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið krefjist áætlunar um fjárhagslega endurreisn vátryggingafélags telji eftirlitið rétti vátryggingartaka stefnt í hættu, jafnvel þótt gjaldþol sé ekki komið niður fyrir lágmark, skv. 30. og 31. gr. laganna. Þá er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið geti dregið úr því vægi sem endurtryggingarvernd hefur til lækkunar á lágmarksgjaldþoli.

Breytingar á tilskipunum sem lagt er til að lögfestar verði innihalda ítarlegri ákvæði en áður um þetta mat eftirlitsstjórnvalda.

Í 7. gr. er lagt til að tekin verði upp ný 90. gr. sem innihaldi m.a. ákvæði sem flutt eru úr 32. gr. sem fellur brott samkvæmt frv.

Nýmæli eru ákvæði um sérstaka áætlun þegar gjaldþol starfandi vátryggingafélags verður ófullnægjandi og efni slíkrar áætlunar. Einnig er lagt til að innleiddar verði takmarkanir á starfsemi vátryggingafélags sem starfar eftir slíkri áætlun.

Lagt er til nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem veittur verði aðlögunartími vegna hertra ákvæða 33. gr. þar sem gert verði ráð fyrir að einn liður nýrrar 29. gr. falli brott að tilteknum tíma liðnum.

Nokkur íslensk vátryggingafélög eru undir hinum nýju mörkum 33. gr. laganna miðað við eigið fé þeirra við árslok 2001. Trygging hf., Vörður -- vátryggingafélag og Vélbáta\-ábyrgðarfélagið Grótta þurfa að nýta aðlögunartímann til þess að auka eigið fé sitt eða til þess að leita leiða til sameiningar við önnur félög ef þau hyggjast starfa áfram eftir að aðlögunartími laganna er liðinn. Fimm önnur vátryggingafélög hafa það lítil umsvif að lágmarksgjaldþol þeirra gæti ráðist af nýjum ákvæðum 33. gr. en þau eiga nægilegt eigið fé til þess að uppfylla þær kröfur. Lagabreyting þessi mun ekki hafa mikil áhrif á stóru almennu vátryggingafélögin þrjú, Sjóvá -- Almennar tryggingar hf., Tryggingamiðstöðina hf. og Vátryggingafélag Íslands hf. þótt gjaldþolshlutfall þeirra muni breytast, væntanlega til lækkunar. Ákvæði um lágmarksgjaldþol verða strangari en áður.

Herra forseti. Ég mælist til þess að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.