Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 17:32:44 (1895)

2002-11-28 17:32:44# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[17:32]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í fyrstu málsmeðferð hef ég ekki heyrt haldbær og viðhlítandi rök fyrir því að þetta mál sérstaklega þurfi einhverja sérmeðferð í hinu háa Alþingi sökum kringumstæðna og aðstæðna. Með slíkri nálgun máls er einfaldlega verið að halda því fram að Íslendingar færu út í Áfengisverslun ríkisins og hömstruðu áfengi vegna þess að hækkun væri yfirvofandi. Ég held að sá tími sé löngu liðinn, herra forseti, að kringumstæður í samfélagi okkar séu með þeim hætti.

Auðvitað eru fjöldamargar aðrar hliðstæður þar sem verið er að breyta álögum og gjöldum af ýmsum toga án þess að þjóðin fari á annan endann og reyni að hamstra, hvort heldur það er olíur eða bensín eða hvaðeina sem við erum að gera hér frá einum tíma til annars. Það eru því engin efnisleg rök sem standa til þess, herra forseti, að þetta mál þurfi að koma hér inn með þeim hætti sem það gerði, með afbrigðum, og að því þurfi að ljúka í skjóli nætur núna á þessu síðkvöldi eða á þessari nóttu. Ég sé engin efni standa til þess og geng út frá því að efh.- og viðskn. fari rækilega og gaumgæfilega yfir þetta mál eins og önnur skattamál, því að hér er auðvitað fyrst og síðast um að ræða tekjuöflun ríkissjóðs, um nýja og hækkaða skatta.

Ég vek athygli á því og vil rifja það upp fyrir hæstv. fjmrh. að tæpir tveir mánuðir eru síðan hann dreifði þessu riti hér, frv. til fjárlaga, í þessum sal hinn 1. október. Mig rekur ekki minni til þess, herra forseti, að sérstaklega hafi verið áætlað að hækka skyldi þetta tiltekna gjald til að endar næðu saman vegna fjárlaga komandi árs. Mér þætti vænt um ef hæstv. fjmrh. gæti þá leitt mig í annan sannleika, ef hann er til, og bent mér á hvar það er að finna í forsendum fjárlaga. Það er ekki.

Hér er með öðrum orðum um glænýja ákvörðun að ræða og ákvörðun sem ætla má af rýrum, innihaldslausum og litlum texta í athugasemdum við frv. á rætur að rekja til þess að ríkisstjórnin hafi gripið til ýmissa ráðstafana að undanförnu sem leitt hafa til aukinna útgjalda m.a. til málefna aldraðra. Með öðrum orðum eru hæstv. ráðherra og stjórnarliðar hér í þessum sal að segja að það eigi að greiða hækkunina til aldraðra með því að hækka brennivínið. Litlu verður Vöggur feginn.

Ekki er mikil reisn yfir þessu, herra forseti. Ekki ganga menn hnarreistir til þessara verka, þegar örfáum dögum eftir að ritað hefur verið undir viljayfirlýsingu með samtökum aldraða er komið í þennan sal að kvöldi dags og brennivínið hækkað til að eiga fyrir þeim hækkunum sem voru nú ekki neitt stórkostlegar þrátt fyrir allt.

Nei, herra forseti, þetta mál er afskaplega aumkunarvert, bæði hvernig það er lagt fram og ekki síður innihald þess. Auðvitað eigum við að fjalla um þetta mál í víðtækara samhengi því að hér er um einfalda skatta að ræða, eins og ég gat um, sem er að finna í tekjuforsendum fjárlaga, og ég vænti þess að í pípunum séu tillögur frá hæstv. fjmrh. af ýmsum toga sem lúta að ýmsum sköttum og gjöldum núna milli 2. og 3. umr. í útgjaldahlið fjárlaganna. Hefði ekki verið eðlilegast, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefði komið með þennan þátt máls inn með öllum hinum þannig að þingheimi gæfist kostur á því að gaumgæfa þessi mál í samhengi og að menn áttuðu sig á því hver heildaráhrif yrðu vegna skattbreytinga á þessum síðustu dögum þingsins fyrir jólaleyfi, en menn væru ekki að skáskjóta sér með þeim hætti sem gert er?

Það er hárrétt sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði áðan að þetta skiptir auðvitað máli fyrir kjör fólks í landinu. Það er nú einn angi þessa máls sem auðvitað er nauðsynlegt að fara mjög rækilega yfir. 0,3% eru ekkert lítil upphæð og hafa veruleg áhrif á skuldsettar fjölskyldur og skipta máli um allt efnahagsumhverfið. Það eru því engin efni til þess, og ég undirstrika það enn og aftur, herra forseti, að þetta mál verði tekið með einhverjum silkihönskum og með hraðferð hér í gegn í rökkrinu.

Ég vil líka rifja það upp í þessu samhengi, herra forseti, af því að ég nefndi fjárlögin, að gert er ráð fyrir í forsendum hæstv. fjmrh. sem hann birti þingheimi í byrjun þings, 1. október sl., að það er ekki eins og engir fjármunir komi inn af sölu áfengis og tóbaks. Á komandi ári er gert ráð fyrir að áfengisgjald skili ríkissjóði 6,6 milljörðum kr. og rúmlega það, og tóbaksgjald á að skila 3,2 milljörðum kr. Þetta leggur sig samtals á tæplega 10 milljarða kr., og til viðbótar þessu er hagnaður af einkasölu ÁTVR umtalsverður og reiknað með að hann skili 3,2 milljörðum á næsta ári. Hér eru engar smátölur á ferðinni, það er rétt að gaumgæfa það, og þessi hækkun kemur þarna væntanlega ofan á upp á 1,1 milljarð kr.

Nú er það alltaf álitamál hversu mikið á að sækja í þennan rann og vissulega hafa þau sjónarmið heyrst stundum að eðlilegt sé að sækja þangað mikla fjármuni og jafnvel enn meiri en gert hefur verið og vísað þá til heilbrigðissjónarmiða. Og þau eiga rétt á sér að vissu leyti. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. af þessu gefna tilefni, herra forseti, hvort í frv. sé ekki síður um heilbrigðispólitík að ræða en tekjuöflun fyrir ríkissjóð, því að í rýrum athugasemdum við frv. kemur fram orðrétt, með leyfi forseta:

,,Af ýmsum ástæðum er þó talið heppilegra að halda áfengisgjaldi léttra vína og bjórs óbreyttu.``

Af hvaða ástæðum er það talið heppilegra? Er heilbrigðispólitík þarna að baki eða hvaða hugmyndir liggja að baki? Hvaða ýmsu ástæður gera það að verkum að ekki er hreyft við léttum vínum og bjór? Ég óska eftir svörum við því. Og einnig hinu hvort legið hafi fyrir þegar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um málefni aldraðra var tekin að aflað yrði fjár með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, með öðrum orðum að hækka áfengis- og tóbaksgjald. Var fulltrúum aldraðra gerð grein fyrir því að þessi leið yrði farin og vísitalan hækkuð um 0,3% í leiðinni? Orsakasamhengið er algerlega kýrskýrt og stendur hér í athugasemdum.

Herra forseti. Það er ekki mikil reisn yfir þessu, það er satt að segja engin reisn yfir þessu. En ég vil treysta því, af því að hv. formaður efh.- og viðskn. er hér fyrir framan mig að hann fari gaumgæfilega yfir þetta mál eins og önnur skattamál og fái til þess góða hjálp frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni. Ég treysti þeim vel fyrir því og vænti þess að þau taki sér þann tíma í málið sem þarf.