Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 18:44:29 (1905)

2002-11-28 18:44:29# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[18:44]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þessu síðasta er nú auðsvarað. 300 milljónirnar koma allar af sterka víninu vegna þess að það er engin hækkun á létta víninu. Gert er ráð fyrir hækkun á áfengisgjaldi á sterk vín einungis en auðvitað vitum við ekki nákvæmlega hvernig þróunin í þessu verður. Það er ekki hægt að hafa uppi annað en einhverjar getsakir um það en líklegt er, eins og ég sagði áðan, að tilflutningur verði frá sterku víni yfir í létt og ég tel það bara í sjálfu sér æskilegt.

Hvað varðar hins vegar spurningu þingmannsins um áhrifin af vísitölubreytingunum, þá koma þau fram við mælinguna núna í byrjun desember. Þá eru þau komin inn í grunninn og hafa ekki áhrif á næsta ári.

Að því er varðar síðan það hvort nota eigi hluta af þessu fjármagni til að efla vímuefnavarnir þá sé ég enga sérstaka ástæðu til þess af tilefni þessarar hækkunar. Það er margt vel gert í þeim efnum og veitt er ákveðið fjármagn eins og allir vita til þeirra mála. Auðvitað má alltaf segja sem svo að gera megi betur í þeim efnum en þá er það sjálfstætt mál til skoðunar. Ég tel ekki að það eigi að tengjast þessu máli sérstaklega eða þeirri tekjuöflun sem hér er á ferð, það er þá bara nýtt mál ef menn vilja taka það upp.

En ég vil bæta því við varðandi það sem menn hafa verið að segja um skuldir heimilanna og það allt saman, að því má heldur ekki gleyma í umræðu um það mál og kaupmáttaraukann á þessu ári og fleira, hversu mikið vextir hafa verið að lækka. Það er auðvitað mjög mikilvægt í því dæmi og verður að vera með í útreikningum ef menn vilja fara að skoða sérstaklega skuldir heimilanna, því þá er það skuldabyrðin sem er kannski aðalatriðið, hvað menn þurfa að greiða af tekjum sínum upp í skuldir og svo auðvitað hvernig tekjurnar hafa verið að þróast. Sú þróun er mjög jákvæð á þessu ári.