Sala ríkisbankanna

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:03:00 (1910)

2002-12-02 15:03:00# 128. lþ. 43.1 fundur 284#B sala ríkisbankanna# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsrh. sem yfirmanns einkavæðingarnefndar, þ.e. hann fer með þau mál, vegna eftirleiksins við sölu á hlut ríkisins í bönkunum og ákvörðunar einkavæðingarnefndar um að ganga til viðræðna og selja tilteknum aðilum ráðandi hlut, fyrst í Landsbanka og síðan Búnaðarbanka.

Nú er staðan sú í þessu máli að Búnaðarbankinn er enn á athugunarlista Kauphallar Íslands og hefur verið þar, líklega í hálfan mánuð eða meira. Hvað þýðir það? Það þýðir að í málefnum fyrirtækisins er óvissa sem Kauphöll Íslands telur ástæðu til að vara almenna hluthafa og markaðinn við. Þessa óvissu tengir Kauphöllin m.a. við að ekki liggur fyrir hver erlendi væntanlegi meðeigandi innlendu kaupendanna verður og heldur ekki hvernig innbyrðis hlutföll þeirra koma til með að líta út.

Þetta, herra forseti, getur varla talist mjög heppilegt ástand. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvað hann segi um þessa stöðu.

Varðandi Landsbankann þá er litlu betra ástand þar. Í morgun kom tilkynning í Kauphöllinni um að undirritun kaupsamnings mundi dragast. Búið var að gefa það út að samningar yrðu undirritaðir nú fyrir síðustu mánaðamót. En í morgun, samkvæmt tilkynningu sem kom fram í Kauphöllinni, er talað um að það geti vonandi orðið fyrir árslok. Þar er að verða mikill dráttur á. Hvort það er vegna þess að áreiðanleikakönnun taki lengri tíma eða hvað það er, skal ósagt látið.

Með öðrum orðum, herra forseti, hefur undirbúningurinn ekki verið vandaðri en svo að þessi mál eru í verulegri óvissu og dragast. Það hlýtur að teljast mjög alvarlegur, a.m.k. óheppilegur, framgangsmáti þegar í hlut eiga mikilvæg fyrirtæki í kauphöllinni. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvað þetta segi okkur um vinnubrögð einkavæðingarnefndar.