Sala ríkisbankanna

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:06:16 (1912)

2002-12-02 15:06:16# 128. lþ. 43.1 fundur 284#B sala ríkisbankanna# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það kemur svo sem ekki á óvart að hæstv. forsrh. reyni að bera í bætifláka fyrir sína menn. Ég verð hins vegar að segja að mér fundust þetta ekki sannfærandi útskýringar. Ég tel að það vanti frekari rök til að halda því fram að þetta sé heppilegt ástand og sé það sem til hafi verið ætlast. Þegar það fréttist að þessir aðilar ættu eitthvað lítið af peningum á lausu og mundu ekkert borga í bankanum fyrr en einhvern tíma á næsta ári fannst manni það eitt og sér alveg nóg þótt ekki bætist við að upp sé komin viðvarandi óvissa um stöðu þessara mikilvægu fyrirtækja og að annað þeirra verði áfram á athugunarlista Kauphallarinnar.

Ég vildi einnig spyrja hæstv. forsrh. hvort það hafi verið skoðað að hinir nýju eigendur Búnaðarbankans muni e.t.v þurfa að gera öðrum eigendum yfirtökutilboð. Var það inni í viðræðunum um söluna að sá möguleiki kynni að koma upp þegar svo stór hlutur er seldur, þ.e. 45%, sem samkvæmt samkeppnisreglum víðast hvar í nágrannalöndunum mundi sjálfkrafa þýða að eigendurnir yrðu að gera öðrum aðilum yfirtökutilboð?