Sala ríkisbankanna

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:08:38 (1914)

2002-12-02 15:08:38# 128. lþ. 43.1 fundur 284#B sala ríkisbankanna# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef aldrei notað orðið óeðlilegt í þessu sambandi. Ég ræði bara þær staðreyndir sem fyrir liggja. Það kom í ljós, eftir að búið var að velja þennan aðila úr hópi þeirra sem til greina komu, að hann mundi ekki greiða neitt fyrir bankann fyrr en á næsta ári og ekki að fullu fyrr en undir lok næsta árs. Menn stóðu í þeirri meiningu að ríkið ætlaði að selja þessi fyrirtæki og fá fyrir þau peninga. Undir venjulegum kringumstæðum í slíkum viðskiptum borga menn a.m.k. eitthvað strax. Það er svona venjan. Þetta vakti því auðvitað mikla athygli og undrun.

Í öðru lagi, varðandi yfirtökutilboð, herra forseti, veit ég ekki betur en verið sé að selja kjölfestufjárfesti 45% í Búnaðarbankanum og að á bak við kunni að liggja samningar um kaup hans á stærri hlut. Þá erum við mjög að nálgast þau 50% sem gera það, jafnvel að íslenskum lögum, skylt að gera yfirtökutilboð. Í nágrannalöndunum eru þessi hlutföll yfirleitt mun lægri, 40 eða jafnvel 33%. Í undirbúningi er evrópsk tilskipun sem við munum verða bundin af þar sem líklegt er að þessi hlutföll lækki. Það vekur mikla undrun ef einkavæðingarnefnd og ríkisstjórnin hafa ekki einu sinni velt þeim möguleika fyrir sér að til þessa kynni að koma og jafnvel haft áskilnað um að þessir aðilar, ef þeir fengju svona stóra hlut, byðu upp á yfirtöku.