Sala ríkisbankanna

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:10:02 (1915)

2002-12-02 15:10:02# 128. lþ. 43.1 fundur 284#B sala ríkisbankanna# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég get ekki séð að það hljóti að vekja athygli eða undrun hér að íslenska einkavæðinganefndin ákveði að fara að lögum. Hún fer nákvæmlega að íslenskum lögum. Það vekur ekki undrun hjá neinum nema þá hv. þm.

Ég vek athygli á því í annað sinn að greiðslutilhögun þessara aðila, hvort sem það varðar Landsbankann eða Búnaðarbankann, og á því er enginn munur, er algerlega í samræmi við það sem ákveðið hefur verið á milli aðilanna. Það er óþarfi að sá einhverri tortryggni út af þeim efnum. Menn munu reiða fram sitt kaupverð þegar öll áreiðanleikakönnun hefur átt sér stað og frá öllu hefur verið gengið. Þá fá þeir afhent hlutabréf sín og fyrr ekki. Þetta eru eðlileg viðskipti --- hönd réttir hendi.