Lækkun tekjustofna sveitarfélaga

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:11:06 (1916)

2002-12-02 15:11:06# 128. lþ. 43.1 fundur 285#B lækkun tekjustofna sveitarfélaga# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Í þessari viku er áætlað að halda árlegan samráðsfund ríkis og sveitarfélaga og ræða málefni sveitarfélaganna gagnvart ríkisvaldinu og einkum þá fjárhagsleg samskipti. Ég spyr hæstv. félmrh. út í eitt atriði í þessum samskiptum, þ.e. fjölgun einkahlutafélaga í kjölfar rýmkaðra heimilda til stofnunar einkahlutafélaga. Ég er ekki að andmæla þeim breytingum eða gagnrýna en spyr um þær breytingar sem verða á tekjustofnum sveitarfélaga í leiðinni.

Ég spyr því hæstv. félmrh. hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að bæta sveitarfélögunum það mikla tekjutap sem verður vegna þessara kerfisbreytinga. Eins og fram hefur komið í blaðaviðtölum við formann Sambands íslenskra sveitarfélaga nemur tekjumissir þeirra allt að einum milljarði á næsta ári.

Það hefur jafnframt komið fram, herra forseti, að þetta muni bitna mjög illa á minni sveitarfélögum vítt og breitt um landið vegna þess að þar hafi verið margir einyrkjar sem breyta starfsemi sinni yfir í einkahlutafélög.

Spurning mín til hæstv. félmrh. er: Hvað á að koma í staðinn fyrir milljarðinn sem sveitarfélögin verða af í tekjum á næsta ári?