Kræklingarækt

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:19:06 (1923)

2002-12-02 15:19:06# 128. lþ. 43.1 fundur 286#B kræklingarækt# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Kræklingarækt hefur fengið nokkurn styrk á liðnum árum. Ég fór reyndar yfir það í fyrirspurn á síðasta þingi. Sá stuðningur hefur aðallega verið í formi rannsókna á lífríki og umhverfi og til undirbúnings útgáfu á heilbrigðisvottorðum. Lítið hefur verið veitt til fjárfestinga ef nokkuð. Fjárfestingar í kræklingarækt eru ekki mjög miklar samanborið við eldi á öðrum sjávardýrum og rekstrarkostnaður þangað til kemur að því að uppskera er ekki mjög mikill miðað við eldi á öðrum sjávardýrum.

Hitastig hér er þess eðlis í sjónum í kringum landið samanborið við önnur lönd þar sem kræklingur er ræktaður, að vaxtartíminn er mun lengri. Þar af leiðandi er samkeppnisstaðan mun erfiðari þegar kemur að því að koma afurðunum á markað. Við erum líka talsvert langt frá markaðnum og eins og menn gera sér auðvitað grein fyrir þá er skelin mikil að umfangi miðað við það magn matvæla sem inni í henni felst. Þar af leiðandi er ekki líklegt að við munum keppa á markaði með ferskum kræklingi við afurðir erlendis frá. Við þyrftum þá að vinna frekar úr afurðinni og það mundi kalla á mjög mikið þróunarstarf.

Nágrannar okkar í Noregi hafa lagt talsvert mikla fjármuni í ræktun á skel, þó aðallega í gegnum fyrirtækið Norshell sem mjög nýlega þurfti að ganga í gegnum endurfjármögnun vegna þess hversu illa það hefur gengið. Ég sé því ekki á þessari stundu að þeim fjármunum sem við höfum til ráðstöfunar í eldi á sjávardýrum sé best komið í eldi eða ræktun á kræklingi. Ég tel miklu vænlegra að veita þá peninga annað, sérstaklega til þorskeldis þar sem hagsmunir okkar Íslendinga eru mjög ríkir.