Vegaframkvæmdir í Reykjavík

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:24:37 (1928)

2002-12-02 15:24:37# 128. lþ. 43.1 fundur 287#B vegaframkvæmdir í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), GHall
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni leyfi ég mér að beina spurningu til hæstv. samgrh. Í fyrsta lagi: Eftir því sem ég kemst næst liggur væntanlega fyrir skýrsla um mat á umhverfisáhrifum staðsetningar Sundabrautar. Er þetta mat á fjórum af fimm leiðum sem munu koma til greina. Þar sem mikill kostnaðarmunur er á hugmyndum meiri hluta borgarstjórnar og Vegagerðarinnar væri gott að fá svar frá hæstv. samgrh. um hver staða þessa máls er í ljósi þess líka að mjög mikil umferð er um Ártúnsbrekku og er nú orðið svo á álagstímum að menn sjá hversu afar brýnt þetta mál er orðið.

Í annan stað vildi ég spyrja hæstv. samgrh.: Hvað líður undirbúningsvinnu mislægra gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar? Þar má líka sjá að á álagstímum er umferðin orðin slík að til mikilla vandræða horfir, enda fara um þessi gatnamót um 80 þúsund bílar á dag.