Vegaframkvæmdir í Reykjavík

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:25:28 (1929)

2002-12-02 15:25:28# 128. lþ. 43.1 fundur 287#B vegaframkvæmdir í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Eins og hv. þingmenn þekkja er unnið að undirbúningi vegna samgönguáætlunar. Bæði þau verk sem hv. þm. nefndi verða til umfjöllunar í þeirri áætlun. Það liggur fyrir, eins og kom fram hjá þingmanninum, að unnið er að áætlanagerð vegna Sundabrautar sérstaklega. Þar eru margir valkostir uppi á borði og þarf að skoða þá mjög vandlega. Þetta eru mjög misdýrir kostir. Þar er um að ræða veg á fyllingu, veg um brú eða botngöng eða jarðgöng. Það er ekki komið að ákvarðanatöku hvað varðar þær framkvæmdir en er unnið að undirbúningi og ég geri ráð fyrir því að á næstunni verði hægt að fjalla um það mál nánar. Ég get ekki sagt meira um þetta á þessu stigi, en endanlegt umhverfismat verður unnið þegar fyrir liggur tillaga ásamt valkosti á móti þeirri megintillögu. Umhverfismatið mun þá fjalla um þá kosti.

Hvað varðar mislæg gatnamót eða gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar þá hefur svo verið til skamms tíma að ekki hefur verið gert ráð fyrir mislægum gatnamótum í skipulagi. Verið er að vinna að aðalskipulagi fyrir borgina. Væntanlega liggur það fyrir innan tíðar og verður þá tekin afstaða til þeirrar leiðar sem þarf að finna og fara við að bæta aðstöðuna á þessum gatnamótum. En það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. að þar er að sjálfsögðu heilmikil umferð --- það þekkja allir --- og á því þarf að taka á næstu missirum og árum.