Björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:38:49 (1937)

2002-12-02 15:38:49# 128. lþ. 43.2 fundur 375. mál: #A björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:38]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir að gott er að þetta frv. er komið fram. Ég held að það sé hið besta mál og vona að það gangi hratt fyrir sig í nefnd og skili sér aftur til afgreiðslu hér.

Ég vil minna á að ég ásamt nokkrum öðrum hv. þm. hef flutt till. til þál. um úttekt á skipulagi sjóbjörgunarmála. Sú tillaga er reyndar nr. 63 en hefur ekki komið til umræðu í þinginu. Þetta frv. ber þingskjalsnúmer 427 og mér hefði fundist að það hefði kannski verið betra skipulag á hlutunum hér ef mætti ræða mál saman sem væru af svipuðu tagi. Ég tel reyndar að full ástæða sé til að fara yfir ýmis mál hvað varðar aðstæður og aðstöðu björgunarsveita og starfsemi þeirra yfirleitt. Ég vona, og beini því til hæstv. forseta, að þessi þáltill. sem við þingmenn, auk þess sem hér stendur, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, Gísli S. Einarsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Karl V. Matthíasson og Lúðvík Bergvinsson fluttum fái að koma til umræðu og í hendur nefndarinnar þannig að menn geti skoðað þau sjónarmið sem þar koma fram í samhengi við það sem verið er að gera hér.