Kosningar til Alþingis

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:41:39 (1939)

2002-12-02 15:41:39# 128. lþ. 43.3 fundur 391. mál: #A kosningar til Alþingis# (talning atkvæða, kjörseðlar o.fl.) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:41]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um kosningar til Alþingis. Frumvarpið er lagt fram vegna nýrrar kjördæmaskipunar og er megintilgangur þess að heimila talningu atkvæða á fleiri en einum stað í hverju kjördæmi. Í þessu skyni er lagt til að yfirkjörstjórn verði heimilt að kjósa umdæmiskjörstjórn sem þá framkvæmi talningu annars staðar í kjördæminu en á aðsetri yfirkjörstjórnar. Þykir þetta nauðsynlegt, einkum í stóru kjördæmunum þar sem vegalengdir eru miklar og gæti hugsanlega tafið fyrir talningu atkvæða.

Heimildin til að kjósa umdæmiskjörstjórn er þannig fyrst og fremst hugsuð fyrir stóru kjördæmin þrjú, þ.e. Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Lagt er til að í umdæmiskjörstjórn eigi sæti þrír menn og jafnmargir til vara samanber 2. gr. frv. Ekki er lagt til ákveðið tímamark í þessu sambandi en það leiðir af hlutarins eðli að umboð umdæmiskjörstjórnar er jafnlangt umboði þeirrar yfirkjörstjórnar sem kaus hana.

Umdæmiskjörstjórn er ætlað að vinna sama verk og yfirkjörstjórn við talningu atkvæða og er fjallað nánar um það í athugasemdum við einstakar greinar frv. Gert er ráð fyrir að yfirkjörstjórn mæli nánar fyrir um störf umdæmiskjörstjórnar eftir því sem þörf þykir.

Aðrar efnisbreytingar í frv. eru eftirtaldar: Í fyrsta lagi er lögð til lagfæring á upptalningu á sveitarfélögum í 6. gr. laganna í samræmi við breytingar sem orðið hafa á heiti þeirra vegna sameiningar eða af öðrum ástæðum, samanber 1. gr. frv.

Í öðru lagi er lagt til að á kjörseðla komi ferningur eða ferningslaga reitur fyrir framan listabókstafina þar sem kjósendur setja kross samanber 6. gr. frv. Notkun fernings af þessu tagi þykir vera til almenns hagræðis við talningu auk þess sem reynslan hefur sýnt að núverandi fyrirkomulag er ekki nógu skýrt. Er vonast til að með þessari breytingu verði óvissu kjósenda eytt um það hvar á kjörseðlinum hann á að merkja með krossi og til að draga úr hættu á að atkvæði verði talið til vafaatkvæða. Er síðarnefnda atriðið mjög mikilvægt. Þó skal tekið fram að taka skal gilt atkvæði þótt merkt sé utan fernings, svo lengi sem ljóst er við hvaða listabókstaf er átt samanber athugasemdir við 14. gr. frv. Er þar að auki tekið fram að brýnt sé að vafaatkvæði verði skýrð með hliðsjón af vilja kjósandans.

Loks eru lagðar til breytingar á 7. gr. frv. sem miða að því að auðvelda kjósendum sem eiga erfitt með að komast á sinn rétta kjörstað eða greiða atkvæði þar, t.d. vegna fötlunar, að afsala sér kosningarrétti í sinni kjördeild og að fá atkvæði í annarri kjördeild.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.