Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:08:46 (1947)

2002-12-02 16:08:46# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:08]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir yfirferð hans og varnaðarorð vegna þessa máls en vil þó undirstrika að ég legg að sjálfsögðu ríka áherslu á að allt eftirlit með íslenskum skipum og sú löggjöf sem varðar eftirlit með skipum þarf að vera þannig úr garði gerð að við tryggjum öryggi sjófarenda. Það er mikið atriði.

Hins vegar þarf jafnframt að gæta þess, og stundum er nú rætt um það, að eftirlitsiðnaðurinn ofgeri ekki en tryggi engu að síður þessa öryggishagsmuni sem eru mjög miklir.

Í frv. er lögð rík áhersla á það að þó að föstum skoðunum sé fækkað eða dregið úr þeim þá eru skyndiskoðanir afar mikilvægar og Siglingastofnun beitir þeim og heldur uppi góðu eftirliti með góðum, öguðum og skipulögðum vinnubrögðum hvað það varðar. Ég vil sérstaklega undirstrika það.

Hvað varðar 10. gr. sem hv. þm. gerði að umtalsefni þar sem veitt er heimild til þess að Siglingastofnun geti falið öðrum hæfum aðilum að framkvæma einstaka þætti skoðunarinnar þá er ekki verið að leggja á ráðin um allsherjareinkavæðingu þess eftirlits sem Siglingastofnun sinnir heldur vilja menn hafa skýrar heimildir til þess að fela þær einstökum aðilum, samanber t.d. það sem segir í 10. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Ákvæðið tekur einnig til þess þegar sérstakar skoðunarstofur annast skoðun á einstaka búnaði skips, t.d. gúmmíbjörgunarbátum, sleppibúnaði björgunarbáta og slökkvitækjum.``

Þarna er verið að opna leið til þess að einstakar skoðunarstofur geti veitt þessa þjónustu. Til þess að svo geti verið þarf Siglingastofnun að viðurkenna viðkomandi skoðunarstofu þannig að tryggt sé að hún uppfylli þær kröfur sem lög og reglur kveða á um og að viðkomandi skoðunarstofur hafi á að skipa starfsmönnum sem séu til þess bærir og færir að sinna þessu. Þetta vildi ég að kæmi hér skýrt fram.

Ég held að út af fyrir sig sé ekki á vísan að róa með það að við getum endilega tryggt ódýrari þjónustu með því að fela þetta öðrum en Siglingastofnun. Hins vegar þarf auðvitað að hafa möguleika á þessari skipan mála, ekki síst, eins og ég nefndi, þar sem um er að ræða mikla sérhæfingu varðandi einstaka búnað sem skipum fylgir. Ég vildi bara að þetta kæmi fram, herra forseti, við lok þessarar umræðu.