Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:27:59 (1955)

2002-12-02 16:27:59# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:27]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið, en það hefur ýmislegt komið fram sem augljóslega þarf að skoða betur.

Ég held að það sé kannski ágætt að reyna að átta sig á einu atriði af því mér sýnist gæta örlítils misræmis í því sem fram kemur í 28. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Eigandi skips skal greiða árlega í ríkissjóð sérstakt gjald, skipagjald, af hverju skipi sem skráð er á aðalskipaskrá eins og hér segir:``

Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo að eigendur skipa séu skattlagðir um tiltekna fjárhæð og sú fjárhæð renni í ríkissjóð. Ég held að ekki sé hægt að skilja þetta öðruvísi. Er það ekki rétt skilið hjá mér? Ég sé að ráðherra kinkar kolli og ég skil þetta þá þannig.

Þá leyfi ég mér að vísa í athugasemdir fjmrn. Þar segir, með leyfi forseta, ef ég les þetta í heild sinni:

,,Samkvæmt 28. gr. frumvarpsins verður breyting á skipagjaldi, en gjaldið hefur að hluta staðið undir kostnaði Siglingastofnunar Íslands við árlega aðalskoðun skipa. Skipagjaldið er áætlað 63,9 millj. kr. í frumvarpi til fjárlaga 2003.``

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

,,Nú er lagt til að hluti skipagjaldsins verði greiddur árlega í ríkissjóð af eigendum skipa á aðalskipaskrá eða u.þ.b. 36 millj. kr., en 28 millj. kr. verði áfram innheimtar til að standa undir kostnaði við skoðun skipanna.``

Ég skil frv. þannig að öll þau skipagjöld sem eru innheimt samkvæmt 28. gr. frv. renni í ríkissjóð, en þegar maður les þessa umsögn getur maður skilið það á þann veg að eitthvert misræmi sé.

[16:30]

Ég hef tækifæri til þess að fara betur yfir þetta í samgn., en þetta er atriði, virðulegi forseti, sem ég held að sé mikilvægt að liggi mjög skýrt fyrir. Ef á að fara að innheimta hærri skatta og hærri gjöld, þá er það dálítið sérstakt í því ljósi því ætlunin er að draga úr umfangi skipaskoðunar á sama tíma. Ég held að þetta þurfi að liggja fyrir svo menn séu ekki þannig lagað að koma aftan að eigendum skipa á þann hátt að auka gjaldtöku og skatta en um leið að draga úr skoðunum. Ég held að þetta sé hlutur sem við þurfum að fara mjög vandlega yfir.

Þá vil ég taka undir með þeim sem hafa vakið sérstaka athygli á 10. gr. frv., en eins og hún liggur fyrir er Siglingastofnun sjálfri eiginlega falið að úthluta eigin verkefnum til annarra aðila, þ.e. stofnuninni sem slíkri. Því hér segir, með leyfi forseta, í 2. mgr.:

,,Siglingastofnun Íslands hefur heimild til að fela öðrum að framkvæma skoðun og gefur út starfsleyfi þeim til handa. Ráðherra setur reglugerð um starfsemi viðurkenndra skoðunaraðila.``

Með öðrum orðum virðist Siglingastofnun geta gert samninga við tiltekna aðila um að taka að sér tiltekna skoðun og í kjölfarið þá væntanlega gefið út starfsleyfi þeim til handa til að framkvæma þessa ákveðnu skoðun.

Ég held að við þurfum að fara mjög varlega í því, virðulegi forseti, að einkavæða eftirlit með öryggi sjómanna. Ég legg á það ríka áherslu að við förum mjög varlega í þeim efnum því slíkt eftirlit þarf að vera öflugt og það þarf að vera skýrt og klárt hver ber ábyrgðina á slíku eftirliti.

Eins og þetta er sett fram, virðulegi forseti, vil ég leyfa mér að setja talsvert stórt spurningarmerki við þá útfærslu. Ég held að miklu eðlilegra væri, ef menn vilja fara út í þessa aðferðafræði, að hæstv. ráðherra útdeildi þeim verkefnum og gerði þessa samninga, en ekki að stofnunin sem slík sé að færa verkefni frá sjálfri sér.

Þetta verður kannski örlítið ruglingslegra í því ljósi hvort sem skipagjöldin renna nú öll eða að hluta til í ríkissjóð og að hluta til til Siglingastofnunar, ég er ekki alveg klár á því eins og þetta kemur fyrir, þá hljótum við að þurfa að skoða það líka ef Siglingastofnun getur fært verkefni frá sjálfri sér, en haldið áfram þeim tekjuminni sem ætlunin er að innheimta.

Ég held því að fara þurfi mjög vandlega yfir margt í frv., virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tjá mig um skoðun mína á þessu máli hér og nú, en það er alveg augljóst af því sem hér hefur verið vakin athygli á að þetta þarf að skoða. Ef stærðfræðin bregst mér ekki í þessum efnum, þá sýnist mér að á tíu ára tímabili fari fram svokölluð milliskoðun eins og það er orðað í frv. á tveggja ára fresti en aðalskoðun fari fram fimmta hvert ár, ef stærðfræðin bregst mér ekki. Það fer þá fram væntanlega ein skoðun eftir fimm ár, önnur eftir tíu ár, en á fjórða ári fer fram milliskoðun, á sjötta ári fer væntanlega fram milliskoðun, aðalskoðun þarna á milli og síðan á tíunda árinu bæði milliskoðun og aðalskoðun á sama ári. Mér sýnist því augljóslega að við þurfum að fara vandlega yfir þessa hluti a.m.k. eins og þetta er lagt upp.

En ég ítreka líka, virðulegi forseti, að við eigum eftir að fá góðan tíma til að fara yfir þetta og ég sé að formaður samgn. kinkar kolli í þeim efnum, þannig að ég held að við munum gefa okkur góðan tíma til að fara yfir frv.

Ég vildi bara vekja athygli á þessu, virðulegi forseti.