Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:39:56 (1958)

2002-12-02 16:39:56# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:39]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason talar um depurð vegna Bifreiðaskoðunar Íslands. Ef þingmaðurinn kaupir sér nýja bifreið þá þarf hann ekki að koma með hana í skoðun fyrr en eftir þrjú ár. Er það dapurt? En áður, þ.e. þegar Bifreiðaskoðun ríkisins var til, þurfti hann að koma með bifreiðina í skoðun árlega. Fleiri þætti mætti telja.

Það getur vel verið að þjónusta bifreiðaskoðunarinnar skarist eitthvað á við hina dreifðu byggð miðað við það sem áður var. En a.m.k. heyri ég að almennt séð er þjónustan nokkuð vel látin og það er það sem skiptir máli. Hitt er kannski eðlilegt og rétt að vera ekki að taka þetta í neinu samhengi, þ.e. skoðun skipa og bifreiða, svo gjörólíkt sem þetta er og skiptir auðvitað máli að öryggis sé gætt og það sé eins og best verður á kosið á hverjum tíma varðandi skipin, eins og þarf að gera í sambandi við bifreiðarnar líka, auðvitað skiptir máli að eftirlit með þessu sé gott.

En það sem mér finnst hins vegar bera dálítið á er að það er ætlast til of mikils af löggjafanum varðandi þetta öryggiseftirlit. Mér finnst að setja þurfi meira á herðar skipstjórnarmannanna sjálfra. Og þá er náttúrlega vafasamt þegar menn koma og segja: Ja, það gengur ekki að setja þessa ábyrgð, öryggisábyrgð með eftirlitinu sjálfu á herðar skipstjórnarmanna vegna þess að útgerðarmenn geta haldið þannig um taumana að þeir hlýði ekki skipstjórnarmönnum þegar kall kemur um bættan búnað eða útskiptingu blakka, togvíra eða á vindum, krönum og öðru því um líku. Ég trúi því ekki að það sé svo að menn hafi ekki hug á að halda slíkum búnaði í lagi. Kannski vantar bara að setja inn í þessi ákvæði háar fjársektir ef menn standa sig ekki í stykkinu og á það þá við útgerðina sjálfa.