Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:42:09 (1959)

2002-12-02 16:42:09# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:42]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að mjög mikilvægt er að skipstjórnarmenn og áhöfnin öll og útgerð hvers skip sé rækilega meðvituð um öryggismál sín og hafi þau í lagi, þannig að skoðunin eigi ekki að vera sá vöndur sem knýr menn til að hafa alla hluti í lagi. Ég get alveg tekið undir það, þó það sé jafnframt nauðsynlegt að vera með eftirlit.

Ég vil árétta það að einkavæðingu á eftirliti og öryggismálum í skipum og hjá sjófarendum ber að varast. Þetta verður að vera í öruggu og góðu lagi og við þurfum að hafa þar hönd á.

Að öðru leyti förum við í gegnum frv. í samgn. en með þeim einkavæðingartón og skattheimtutón sem frv. ber með sér tel ég að við séum á rangri leið.