Vaktstöð siglinga

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:57:12 (1965)

2002-12-02 16:57:12# 128. lþ. 43.6 fundur 392. mál: #A vaktstöð siglinga# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:57]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Þann 4. júlí árið 2000 voru undirritaðir samningar við Landssíma Íslands hf. og Slysavarnafélagið Landsbjörgu um rekstur strandstöðva. Við það tækifæri lýsti ég vilja mínum til þess að láta hefja undirbúning að því að bjóða þessa þjónustu út og er m.a. það frv. sem ég mæli hér fyrir árangur þeirrar vinnu.

Með frv. þessu er lagt til að setja á fót eina vaktstöð siglinga hér á landi. Samgönguráðherra fer, samkvæmt auglýsingu um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969, með málefni vita, hafna, siglinga og skipulag samgangna á landi, lofti og sjó, en vegna stigskiptingar framkvæmdarvaldsins er eðlilegt að Siglingastofnun Íslands annist framkvæmd laganna sem frv. gerir ráð fyrir. Kæruleið vegna stjórnvaldsákvarðana stofnunarinnar er síðan að sjálfsögðu til ráðuneytisins samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar.

Markmiðið er að gefa einni strandstöð aukið hlutverk sem byggist á því að vera vaktstöð siglinga í íslenskri efnahagslögsögu. Hlutverk slíkrar vaktstöðvar er að vera miðstöð skipaumferðar og tryggja enn betur öryggi sæfarenda en nú er. Jafnframt er með frv. komið til móts við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á þessu sviði.

Gufunes er langstærsta strandstöð landsins með fjölda sérhæfðra starfsmanna og hefur yfir miklum tækjabúnaði að ráða. Það liggur því beinast við að hún verði vaktstöð siglinga og taki að sér nauðsynleg verkefni á þessu sviði. Í Gufunesi er nú starfrækt alþjóðleg neyðar- og öryggisþjónusta, GMDSS, fyrir skip og báta sem byggir á vöktun og hlustun á neyðarskeytum frá sjófarendum, sendingum tilkynninga og aðvarana til skipa og báta. Um er að ræða alþjóðlegt kerfi byggt á ályktunum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

Gufunes sinnir einnig vöktun á alþjóðlegum neyðarfjarskiptarásum og sér um stjórn neyðarfjarskipta. Auk þess sinnir strandstöðin símtalsþjónustu við skip og báta, svokallaðri NAVTEX-þjónustu fyrir skip, dreifingu á skeytum úr COSPAS/SARSAT-gervihnattakerfinu og þjónustu við INMARSAT-gervihnattakerfið. Þá sér stöðin um að hljóðrita og vinna skýrslur vegna slysa sem verða og senda út siglingaaðvaranir og veðurspár. Í frv. er lagt til að öll þessi verkefni verði unnin af vaktstöð siglinga.

[17:00]

Eins og fram kom hér á undan ráku Landssíminn og Slysavarnafélagið Landsbjörg sjálfvirka tilkynningakerfið fyrir öll íslensk skip sem eru sex metrar eða lengri. Sú starfsemi sem rekin er í Gufunesi, svo og allt þetta sem að framan er talið, er nú á einum og sama stað.

Ef hugmyndir um eina sameiginlega stjórnstöð leitar og björgunar ná fram að ganga mun hlutverk vaktstöðvarinnar verða að miðla neyðartilkynningum þangað. Sjóbjörgunarþátturinn verður þá væntanlega í stjórnstöð leitar og björgunar. Vaktstöðin gerir henni viðvart og er síðan strax á ný tilbúin til vöktunar.

Með frv. er gert ráð fyrir að verkefnum fjölgi og er í því sambandi fyrst að telja nýtt upplýsingakerfi sem ber að taka í notkun í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum. Um er að ræða upplýsinga- og eftirlitskerfi vegna umferðar á sjó. Það snýr m.a. að tilkynningarskyldu skipa um að þau hafi hættulegan farm um borð þegar þau sigla inn í lögsögu annarra ríkja og/eða inn á hafnarsvæði. Ljóst er að fara verður í uppbyggingu þessa kerfis á næstu árum.

Önnur verkefni sem nefna má eru skráningar skipa sem falla undir hafnarríkiseftirlit, móttaka tilkynninga og miðlun upplýsinga um bilanir og farartálma á sjó og vöktun kerfis um veður og sjólag. Enn fremur er reiknað með því að vaktstöð geti tekið við og hrint í framkvæmd ýmsum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á þessu sviði sem ekki hefur tekist að ljúka á undanförnum árum, eins og uppbyggingu NAVTEX-kerfisins svo eitthvað sé nefnt.

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um áðan er í gildi samningur við Landssímann og Slysavarnafélagið Landsbjörgu um rekstur strandstöðvanna, en sá samningur rennur út 1. janúar nk. Fyrirhugað er að framlengja þann samning til þess tíma að hægt verður að hefja starfrækslu vaktstöðvar þeirrar sem frv. gerir ráð fyrir. Við samþykkt frv. mundu falla úr gildi lög um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, nr. 40/1977, með síðari breytingum, og lög um leiðsögu skipa, nr. 34/1993, með síðari breytingum.

Ég vil leggja til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgn. að lokinni þessari umræðu.