Vaktstöð siglinga

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 17:05:13 (1967)

2002-12-02 17:05:13# 128. lþ. 43.6 fundur 392. mál: #A vaktstöð siglinga# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[17:05]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. er því til að svara að í dag sér Landssíminn um þessa þjónustu. Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur haft með að gera og sinnir algjörlega í húsnæði Landssímans uppi í Gufunesi því sem snýr að tilkynningarskyldu skipa. Það sem hér er um að ræða er að verið er að skapa lagaramma um þessa starfsemi sem Landssíminn sér um fyrir okkur í dag samkvæmt sérstökum samningi. Síðan eru þau gjöld innheimt. En við gerum ráð fyrir því að í framtíðinni verði þessi þjónusta boðin út eins og fram kemur í athugasemdum með frv. Ástæðan er sú að þetta er þjónustusamningur af þvílíkri stærðargráðu að allar okkar reglur á hinu Evrópska efnahagssvæði gera kröfu til þess að slík þjónusta sé boðin út þannig að ekki sé hægt að færa hana einum aðila. Landssíminn er hlutafélag í eigu ríkisins og nokkurra annarra aðila og það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að slíkur samningur sé færður einu félagi án útboðs þó að við höfum gert það vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem hér er um að tefla.