Vaktstöð siglinga

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 17:07:06 (1968)

2002-12-02 17:07:06# 128. lþ. 43.6 fundur 392. mál: #A vaktstöð siglinga# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[17:07]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem virðingarvert að hæstv. samgrh. viðurkennir að markmiðið með þessu frv. sé í megindráttum það að setja þessi mál í þann umbúnað að hægt sé að einkavæða þetta og bjóða það út.

Ég vek athygli á því að hérna er um snaran þátt í öryggismálum að ræða, t.d. móttöku og miðlun neyðarkalla, tilkynningar um óhöpp og slys á sjó, flutning á hættulegum efnum, mengandi varningi og fleira.

Ég vara við slíkri þróun, þessari stefnu sem hefur einkennt þessa ríkisstjórn, þ.e. að einkavæða alla þá opinberu þjónustu sem hægt er. Sérstaklega mótmæli ég því að nú sé verið að undirbúa einkavæðingu öryggismála sjómanna og öryggismála meðfram ströndum landsins og gera þau að öðru leyti síðan að skattstofni.

Virðulegi forseti. Þessi mál koma aftur fyrir í samgn. og þar sit ég. Þar verður farið ítarlega í gegnum þetta mál. En þau frv. sem hæstv. samgrh. hefur verið hér að mæla fyrir lúta fyrst og fremst að því hvernig megi einkavæða og framselja þessa þjónustu til einkaaðila.