Vaktstöð siglinga

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 17:08:46 (1969)

2002-12-02 17:08:46# 128. lþ. 43.6 fundur 392. mál: #A vaktstöð siglinga# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[17:08]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gerist nú rétt eina ferðina enn að hv. þm. Jón Bjarnason gerir sér það að leik að misskilja málin gjörsamlega og gerir það að aðalatriði að hér sé verið að einkavæða. Staðreyndin er sú í dag að hlutafélagið Landssími Íslands sér um þessa þjónustu fyrir íslenska ríkið (Gripið fram í.) með sérstökum samningi og í þeim samningi er gengið tryggilega frá því hver þessi þjónusta á að vera sem nærri 200 millj. eru greiddar fyrir á ári. 200 millj. á ári hefur verið mjög nærri lagi.

Hv. þm. á eftir að fá glöggar upplýsingar um það í hv. samgn. hvernig þetta er nákvæmlega. Það er ekki verið að efna til neinnar einkavæðingar eins og hv. þm. lætur að liggja. Þessi þjónusta er í mjög traustum farvegi. En við gerum ráð fyrir því í framtíðinni að það verði ekki hægt að færa það einum aðila að sinna þessari þjónustu án útboðs. Aðalatriðið er að þjónustan sé vel skilgreind. Þetta er öryggisþjónusta bæði vegna flugs og siglinga sem veitt er í Gufunesi. Frv. um vaktstöð siglinga sem verið er að fjalla hér um á að ramma þessa þjónustu tryggilega inn.