Vaktstöð siglinga

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 17:17:25 (1971)

2002-12-02 17:17:25# 128. lþ. 43.6 fundur 392. mál: #A vaktstöð siglinga# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[17:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir góðar undirtektir við það frv. sem hér er til meðferðar. Það fer ekki á milli mála, og það undirstrikaði ég í framsöguræðu minni, að þetta frv. er afar mikilvægt skref til að bæta skipulagið varðandi eftirlit með siglingum við landið og afar mikilvægt skref samhliða því að sett verði á laggirnar ein leitar- og björgunarstöð. Frv. gerir ráð fyrir því skipulagi sem væntanlega verður komið á innan skamms. Það frv. sem hér er til meðferðar er liður í því að auka öryggi vegna siglinga við strendur landsins og á hafsvæði umhverfis það.

Hv. þm. spurðist fyrir um það hvort búið væri að koma upp móttökubúnaði með stafrænum tæknibúnaði. Ég get því miður ekki svarað því og væri eðlilegt að fá tækifæri til þess að fara nánar yfir það í hv. samgn. hvernig sá búnaður er sem boðið er upp á. Ég verð að vísa til þess.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um eftirlit með siglingum olíuflutningaskipa við landið var starfandi hópur á vegum samgrn. sem gerði m.a. tillögur um siglingaleiðir við strendur landsins. Um það hefur verið mikið deilt. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvort setja eigi á leiðsöguskyldu og gera kröfur um ákveðnar siglingaleiðir flutningaskipa. Ég vona að áður en langt um líður geti orðið samkomulag sem allir aðilar geti fallist á en það eru deildar meiningar milli annars vegar skipafélaganna og hins vegar annarra aðila sem að þessu hafa komið um það hvort eigi að skylda skipstjórnarmenn til að fara tilteknar siglingaleiðir við strendur landsins þegar um er að ræða flutninga á hættulegu efni. Deildar meiningar eru um það hvort sjólag er betra á einu svæði en öðru. Ég tel engu að síður að það þurfi að hafa miklar og góðar gætur á því þegar skip sigla við landið með hættuleg efni, og vaktstöð siglinga á að hafa eftirlit með því. Þetta liggur ekki fyrir á þessu stigi en þarf að huga að því engu að síður.

Ég vil að lokum þakka fyrir málefnalega umfjöllun um frv. og ágætar undirtektir hv. þingmanns.