Vaktstöð siglinga

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 17:23:15 (1973)

2002-12-02 17:23:15# 128. lþ. 43.6 fundur 392. mál: #A vaktstöð siglinga# (heildarlög, EES-reglur) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[17:23]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þessar ágætu umræður hafa spunnist út af því merkilega máli sem hæstv. samgrh. lagði fram í sambandi við vaktstöð siglinga. Allur sá hópur sem kemur með einum eða öðrum hætti að björgunarmálum á Íslandi kom á fund samgn. þar sem við fórum yfir þessi mál. Það var að gefnu tilefni, vegna sjóslyss þar sem mistök höfðu orðið og átt sér stað vegna þessara tilkynninga á milli margra aðila sem fást við björgunarmál. Samgn. var heils hugar um að þetta væri það sem gera þyrfti, þ.e. að taka upp eina vaktstöð siglinga hér á Íslandi. Þess vegna fagna ég þessu máli eins og allir hafa gert sem hafa komið í ræðustól. En af þessu hafa þó spunnist nokkar umræður sem snúa að afmörkuðum siglingaleiðum skipa.

Ég flutti einmitt fyrir nokkrum árum þáltill. í þessu sambandi. Hún var samþykkt og í framhaldinu var skipuð nefnd sem settist á rökstóla til að fara yfir þetta mál. Menn voru mjög tvíátta um það hvort þetta ætti rétt á sér eða ekki. Ég benti m.a. í greinargerð minni á þá alvarlegu staðreynd að skip sigla t.d. fram hjá Selvogsbankanum með hættuleg efni. Þar eru uppeldisstöðvar þorsks. Ég benti enn fremur á hversu háð við erum náttúrlega fiskveiðum, Íslendingar, og ef illa til tækist værum við í miklum vanda stödd.

Ég er á því að auðvitað eigi að taka upp afmarkaðar siglingaleiðir og við þurfum ekki annað en að horfa til norðurstrandar Spánar þar sem alvarlegt mengunarslys hefur orðið vegna sjóskaða á olíuskipi.

Ég velti líka vöngum yfir því hér hversu nauðsynlegt það er að taka þetta upp ef við horfum bara hérna á næsta nágrenni við okkur, Hvalfjörðinn, þegar stór olíuflutningaskip fara upp í Hvalfjörð í myrkri og öllum veðrum vegna þess að það eru engin ákvæði um það hvernig skuli með fara. Dæmi eru meira að segja um það að hafnsögumenn í Reykjavík neituðu að fara með olíuflutningaskip upp í Hvalfjörð því veður var válynt og skyggni slæmt. En þá var annar hafnsögumaður í næsta bæjarfélagi sem var tilbúinn til þess að fara með skipið í mikilli tvísýnu. Þetta er grafalvarlegt mál sem auðvitað verður að taka á og er full ástæða til. Það er einmitt full ástæða til þess að skip tilkynni sig og það séu einhverjar afmarkaðar siglingaleiðir sem þau verða að fara. Tökum líka tankskipin. Lítum á hvernig strandflutningum á olíu er háttað í dag. Erlent skip með erlendri áhöfn sér um dreifingu á olíu hér með ströndum fram. Ég tel að það sé umhugsunarefni sem auðvitað á að taka á eins og Norðmenn gera. Þeir hafa það skýrt í sínum lögum að innan skerjagarða skuli skip sem þar sigla, ef þau eru í reglulegum strandsiglingum, vera með norskri áhöfn.

Ef hér verður eitthvert millibilsástand á milli þess að einhver olíuskip verði íslensk, sem eru í smíðum erlendis og koma væntanlega hingað, á auðvitað að setja það skilyrði að það sé íslenskur skipstjórnarmaður um borð í erlendu olíuflutningaskipi sem annast strandflutninga við Ísland.

Vaktstöð siglinga, afmarkaðar siglingaleiðir skipa og annað hlýtur að koma inn í þessa mynd. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. samgrh. taki á þessu máli og setji nú skýrar reglur um það hvernig skuli með fara. Ég held að það sé full ástæða til þess í ljósi þeirra skaða sem orðið hafa í nágrannalöndunum vegna olíumengunar þá skip hafa sokkið, og með tilliti til þess hve háð við erum fiskveiðum. Það er því full ástæða til þess að taka þetta mál til alvarlegrar og rækilegrar skoðunar og auðvitað að setja sams konar ákvæði og nágrannaþjóðir okkar telja sjálfsagt og eðlilegt.