2002-12-03 13:45:08# 128. lþ. 44.94 fundur 291#B leiðtogafundurinn í Prag og þátttaka Íslands í hernaðarstarfsemi á vegum NATO# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég held að engum blandist hugur um að leiðtogafundurinn í Prag markaði tímamót. Þar gerðist það að sjö ný ríki sem höfðu lengi sóst eftir aðild voru tekin inn í Atlantshafsbandalagið. Ég fagna því og Samfylkingin fagnar því og við erum sérstaklega ánægð með það að Eystrasaltsríkin skuli nú vera orðin fullgildir þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu. Þau höfðu lengi barist fyrir því og íslenskir jafnaðarmenn höfðu stutt þá baráttu heima og erlendis og ég tel að inntaka þeirra marki jákvæð kaflaskil í öryggismálum álfunnar.

Það vakti hins vegar athygli að forráðamenn Íslendinga töluðu ekki mjög skýrt um nýjar skuldbindingar Íslendinga eftir fundinn í Prag. Ummæli þeirra um 300 millj. kr. framlag til að flytja hergögn, jafnvel herlið, til ótilgreindra átakasvæða gáfu til kynna að búið væri að skuldbinda Íslendinga til beinnar þátttöku í hernaðaraðgerðum, t.d. í Írak. Samfylkingin hefur sterkar efasemdir um það.

Hæstv. utanrrh. hefur hins vegar borið þetta til baka í fjölmiðlum og hann hefur sagt að túlkun fjölmiðla í þessa veru sé á algjörum villigötum. Ég tek það auðvitað trúanlegt, herra forseti.

Við höfum ákveðna sérstöðu innan Atlantshafsbandalagsins. Sú sérstaða felst í því að við erum herlaus þjóð og það hefur verið grundvallarregla að við höfum ekki tekið þátt í beinum hernaðaraðgerðum. Þá grundvallarreglu á að heiðra.

Framlag okkar í vörnum hins vestræna heims hefur miðast við tvennt, annars vegar að leggja til svæði undir alþjóðlegan flugvöll sem hefur vegna landfræðilegrar sérstöðu Íslands skipt miklu máli. Hins vegar höfum við í vaxandi mæli tekið þátt í vel skilgreindum verkefnum við friðargæslu og uppbyggingu í tengslum við starfsemi NATO. Samfylkingin styður og hún mun styðja viðleitni til að treysta samstarf ríkja Atlantshafsbandalagsins til þess að verja þau gildi sem bandalagið er byggt í kringum. Og við höfum lagt ríka áherslu á að Íslendingar taki þátt í aðgerðum gegn hryðjuverkum á alþjóðlega vísu.