2002-12-03 13:47:29# 128. lþ. 44.94 fundur 291#B leiðtogafundurinn í Prag og þátttaka Íslands í hernaðarstarfsemi á vegum NATO# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[13:47]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Íslendingar hafa með aðild að Atlantshafsbandalaginu frá stofnun þess 1949 og varnarsamningnum við Bandaríkin sinnt þeirri skyldu sinni að tryggja öryggi þjóðarinnar. Á leiðtogafundi NATO í Prag var ákveðið að sjö nýjum ríkjum yrði boðið að slást í hóp þeirra 19 sem fyrir eru. Stækkunin hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir lýðræði og frið í Evrópu. Einnig er vert að leggja áherslu á að mjög gott samstarf hefur einnig tekist milli Atlantshafsbandalagsins og Rússlands, sem allt hnígur í þá átt að styrkja enn frekar þessa þróun.

Herra forseti. Á síðustu vikum hefur farið fram undarleg umræða hér á landi um hlut Íslendinga í eigin öryggisgæslu og þátttöku okkar í sameiginlegum vörnum á alþjóðavettvangi. Hefur sú umræða einkennst af rangfærslum og því að gera tortryggileg þau áform íslenskra stjórnvalda að íslenskar flugvélar verði til taks á kostnað stjórnvalda ef hættuástand skapast.

Þessi ábyrgðarlausi málflutningur hefur gengið allt of langt og hefur þegar skaðað íslensku flugfélögin út á við. Það er ekkert tilefni til orðræðu af þessu tagi. Hún er algjörlega fráleit. Íslenskar flugvélar verða aldrei þátttakendur í beinum hernaðaraðgerðum. Þær eru ekki til þess búnar og flugmenn þeirra hafa ekki hlotið þjálfun til slíkra aðgerða.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hélt því fram í upphafi umræðunnar að um stefnubreytingu væri að ræða af hálfu ríkisstjórnar Íslands. Það er ekki um neitt slíkt að ræða. Íslendingar eru hins vegar ásamt öðrum þjóðum að sinna skyldum sínum í alþjóðlegu samstarfi innan NATO og Sameinuðu þjóðanna með því að taka þátt í friðargæslu og hjálparstarfi erlendis ásamt baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi sem er mesta vá sem nú blasir við heimsbyggðinni allri. Svo einfalt er það.