2002-12-03 13:49:42# 128. lþ. 44.94 fundur 291#B leiðtogafundurinn í Prag og þátttaka Íslands í hernaðarstarfsemi á vegum NATO# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[13:49]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Með því að lofa að gangast undir og gegna herkvaðningu Bush Bandaríkjaforseta hafa forustumenn ríkisstjórnarflokkanna á Íslandi framið ótrúleg afglöp. Um aldir hefur verið óbifanleg samstaða á Íslandi um þá afstöðu að Íslendingar skyldu aldrei eiga aðild að neins konar hernaðaraðgerðum gegn neinum.

Á síðustu öld, vígaöld, lýsti landið þessu margsinnis yfir enda þótt Ísland lægi þá um vígaslóð þvera og ekki væri þá minna umleikis í hernaðaraðgerðum en nú vegna hermdarverka.

Nú hafa hins vegar íslenskir rembumenn lýst því yfir að þeir muni gangast undir herútboð stríðsmannsins vestra þegar honum þykir henta.

Við erum hér komin inn á mjög alvarlega braut og er ástæðulaust að þvarga og blanda inn í þetta aðild okkar að NATO. Við lýstum yfir stöðu okkar í þessum málum þegar við gengum í NATO og það var forsendan fyrir því að samþykkt var að ganga í NATO. Við lýstum því yfir þegar við gengum í Sameinuðu þjóðirnar og við lýstum því yfir þegar við gerðum varnarsamning á Reykjanesi.

Það verður að vísu af mörgu merku og mikilvægu að taka í komandi kosningum. En það verða líka greidd atkvæði um þessi málefni ásamt deCODE-vitfirringunni.