2002-12-03 13:59:47# 128. lþ. 44.94 fundur 291#B leiðtogafundurinn í Prag og þátttaka Íslands í hernaðarstarfsemi á vegum NATO# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og svör hæstv. ráðherra. Það er að sjálfsögðu leitt ef okkar ágætu flugfélög hafa ómaklega orðið fyrir hremmingum í þessu máli. En það er þá a.m.k. algerlega ljóst við hvern er að sakast og hverjir eiga sök á því ef misskilningur hefur farið í loftið um eðli þessa máls. Það er ríkisstjórnin. Því miður er það ekki alveg jafnskýrt enn þá hvað í þessu kynni að reynast fólgið því að lengst gengur sú yfirlýsing hæstv. utanrrh. að ótímabært sé að ræða og að eftir eigi að skilgreina í hverju framlag okkar yrði fólgið og að ekkert sé hægt að útiloka fyrir fram í því sambandi, samanber hádegisfréttir Ríkisútvarpsins 26. október sl.

[14:00]

Hæstv. ráðherra spyr: Á Ísland ekki að taka þátt í nýjum verkefnum NATO? Spurningin er ekki hér aðeins um hvort heldur líka hvernig Ísland, sem leggur skammarlega lítið af mörkum til friðsamlegrar og uppbyggilegrar þróunarsamvinnu, eigi að bjóða fram frekari framlög til slíkra verkefna, eða segja að við munum takmarka þátttöku okkar og fjárframlög alfarið við ramma borgaralegrar starfsemi og halda okkur hér eftir sem hingað til utan við hernaðarlega þætti. Það er alveg ljóst að beinlínis sjálf innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið var með þeim skýra fyrirvara að við værum herlaus og vopnlaus þjóð og hygðumst vera svo áfram. Aðildarríkjunum er það vel ljóst og er einhver ástæða til að ætla annað en að því hefði verið vel tekið að tilboð af Íslands hálfu um þátttöku yrði hér eftir sem hingað til á slíkum grunni? Við gátum lagt fram sambærilega fjármuni og komið ekki síður að liði en án þess þó að flækja okkur með þessum hætti inn í hernaðarlega þætti starfseminnar hvað ég gagnrýni, og sérstaklega ef fyrirhugað er að halda áfram og lengra á þeirri braut.

Ég tel, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn hafi staðið illa að þessu máli. Ég gagnrýni hana fyrir að hafa ekki eðlilegt samráð við utanrmn. Alþingis og ég tel að það sé við hana að sakast hversu ólánlega hefur til tekist með þetta mál og umræður í því sambandi.