2002-12-03 14:02:02# 128. lþ. 44.94 fundur 291#B leiðtogafundurinn í Prag og þátttaka Íslands í hernaðarstarfsemi á vegum NATO# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:02]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það hefur skipti eftir skipti verið notað hér hugtakið hernaðaraðgerðir. Við höfum tekið þátt í aðgerðum í Bosníu-Hersegóvínu á síðari stigum. (Gripið fram í: Við?) Við höfum tekið þátt í aðgerðum í Kosovo. (Gripið fram í.) Við höfum tekið þátt í aðgerðum í Afganistan. Allar þessar aðgerðir hafa að því stefnt að koma á friði. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að enginn hefur beðið Íslendinga að koma að þessum aðgerðum á fyrstu stigum enda höfum við ekki til þess búnað og engan her. Það sem við höfum lagt af mörkum er með borgaralegum hætti. Það liggur alveg ljóst fyrir hvað varðar þær flugvélar sem hafa flutt gögn, vistir og annað af okkar hálfu, að það hefði verið hægt að fá hvaða flugfélag í heiminum til þess að gera það. En að útiloka að ekki geti verið einhver gögn sem viðkomandi hersveitir sem eru að gæta friðarins í þessum löndum þurfi á að halda er að sjálfsögðu ekki hægt að gera fyrir fram. Það kemur ekki til greina. Enda tekur hvaða flugfélag í heiminum sem er slíkt að sér.

Íslendingar eru á engan hátt að blanda sér inn í aðgerðir á fyrstu stigum. Það hefur engum dottið í hug og það eru engar líkur til þess að slíkar beiðnir komi til okkar. Eitt þarf líka að vera alveg ljóst, það er að sjálfsögðu viðkomandi flugfélags að taka ákvörðun um það hvort það er tilbúið til þess að taka að sér þá flutninga sem um er að ræða. Þar er það að lokum skipstjórinn, flugstjórinn sem ræður ferð en ekki íslenska ríkisstjórnin. Það liggur alveg ljóst fyrir að íslensk flugfélög eru ekki undir skipunarvaldi eins og um her væri að ræða. Hér er um frjáls félög að ræða sem taka að sér verkefni á eigin forsendum en hafa skuldbundið sig til þess að hjálpa til ef þau geta þá tekið það að sér þegar þar að kemur.