Breyting á XV. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:05:27 (1987)

2002-12-03 14:05:27# 128. lþ. 44.6 fundur 394. mál: #A breyting á XV. viðauka við EES-samninginn# (aðstoð til menntunar, ríkisaðstoð til fyrirtækja) þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XV. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar nr. 68/2001 og jafnframt nr. 69 og 70 frá sama tíma sem fjalla um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar, lágmarksaðstoð og ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni. Er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeim reglugerðum sem hér um ræðir. Þessi ákvörðun er tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu eins og lög og reglur gera ráð fyrir.

Sú málsmeðferð sem hér er viðhöfð, að leggja fram sérstaka þáltill., er í samræmi við þá tilhögun sem áður hefur verið gerð grein fyrir á hv. Alþingi og hefur tíðkast áður. Hvað varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir að meginstefnu að vísa til greinargerðar sem fylgir tillögunni auk gerðarinnar sjálfrar en reglugerðirnar eru settar á grundvelli eldri reglugerðar um beitingu ákvæða stofnsáttmála EB um svokallaða lárétta ríkisaðstoð. Efnislega eru reglugerðir þessar samhljóða núgildandi leiðbeiningarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar. Þær fela í sér hópundanþágur frá almennum ákvæðum EES-samningsins um ríkisaðstoð á þeim sviðum sem þær taka til og heimila þannig ákveðna ríkisaðstoð í vissum tilvikum.

Talið var á sínum tíma nauðsynlegt að breyta lögum vegna innleiðingar á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 68/2001 og því var gerður stjórnskipulegur fyrirvari við töku ákvörðunarinnar í EES-nefndinni. Við nánari skoðun hefur komið í ljós að reglugerðin kallar ekki á lagabreytingu og er hægt að innleiða hana með almennri reglugerðarsetningu.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.