Breyting á XV. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:20:59 (1990)

2002-12-03 14:20:59# 128. lþ. 44.6 fundur 394. mál: #A breyting á XV. viðauka við EES-samninginn# (aðstoð til menntunar, ríkisaðstoð til fyrirtækja) þál., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:20]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem ég vil gera hér að umtalsefni í tengslum við þessa tillögu.

Í fyrra lagi vil ég nefna þá staðreynd að við höfum ekki mikið val í þessum efnum, eins og oft hefur komið fram í umræðu um löggjöf frá Evrópusambandinu. Við erum skuldbundin, eins og þingheimur veit, til að taka upp þessa löggjöf. Talið er að við séum skuldbundin til að taka að allt að 90% af löggjöf Evrópusambandsins upp í okkar löggjöf. Í reynd höfum við ekkert val um það þó að í samningum segi að formlega höfum við neitunarvald. Slík neitun mundi leiða til þess að öllum ákvæðum yrði frestað, ekki einungis gagnvart Íslendingum heldur öllum samningsaðilum. Það mundi hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér enda hefur aldrei komið til þess að neitt aðildarríki að EES-samningnum hafi neitað um staðfestingu því það mundi setja EES-samninginn í uppnám.

Þetta segir okkur hins vegar að við erum komin í afskaplega erfiða stöðu, að þurfa jafnvel að taka upp mál sem við mundum gjarnan vilja útfæra á annan hátt en höfum ekki kost á. Það var minnst hér fyrr í umræðunni á raforkusamninginn sem við áttum ekki kost á að hafa áhrif á á sínum tíma. Við hefðum hugsanlega getað komið að ábendingum um aðra útfærslu gagnvart okkur ef við hefðum haft tök á því. Mér finnst, herra forseti, þetta lýsa þeim vandamálum sem við stöndum í gagnvart Evrópusambandinu og nauðsyn þess að taka málin upp með opnari huga eins og hæstv. utanrrh. hefur talað fyrir á undanförnum mánuðum. Reyndar hafa ýmsir af þeim þingflokkum sem hér eiga sæti einnig gert hið sama.

Það er óviðunandi fyrir okkur sem fullvalda þjóð að þurfa að búa við þau skilyrði að taka upp löggjöf með þessum hætti án þess að hafa á það nein áhrif. Það má vel vera að niðurstaða úr því verði að við þurfum að taka þessi mál öll til uppstokkunar, hvort sem þau leiða til aðildar eða ekki. Ég fullyrði ekki um það á þessu stigi málsins en vek athygli á að það er óbærilegt til lengdar fyrir okkur, sérstaklega eftir stækkun Evrópusambandsins, að búa við þennan einstreymisloka. Mín persónulega skoðun er að við eigum að skoða aðild með opnum huga.

Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á þessu en málið hér er mjög athyglisvert vegna þess að það snertir, eins og kom fram í umræðunni, m.a. lítil og meðalstór fyrirtæki. Stefnumörkun Evrópusambandsins um hin skýru samkeppnisákvæði sem hér koma fram er athyglisverð, að hér séu veittar ákveðnar undanþágur sem séu annars vegar til stuðnings menntun og hins vegar til stuðnings lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Ég vil taka fram, varðandi lítil og meðalstór fyrirtæki, að þau eru af margvíslegri stærð. Þó að hér sé talað um 250 manns eru til margar skilgreiningar á þessu, 60 manna fyrirtæki eða 10--50 starfsmenn. Um þetta er sérstök fræðigrein, þ.e. hagfræði lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Tíminn endist ekki í þessari umræðu fyrir mig að úttala mig um það. En þetta er mjög merkilegt svið sem við höfum rætt á pólitískum vettvangi undanfarin ár og ættum að gera í meiri mæli. Þarna er sóknarmöguleikinn í íslensku atvinnulífi og full ástæða fyrir okkur að skoða bæði þessi atriði og önnur. Reyndar hefur núv. ríkisstjórn og aðrir flokkar jafnframt lagt þessum málum lið á undanförnum árum. Það er mjög mikilvægt að sjá fyrir sér sóknarfærin í þessu umhverfi, hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Menn eiga ekki að hrökklast frá þegar þeir sjá að gert sé ráð fyrir 250 starfsmönnum, eins og hér stendur. Það eru raunverulega miklu færri starfsmenn í þessu. Sérstaðan er mjög margvísleg. Opinberir aðilar geta gert margt, eins og kemur fram í þessu, til að styðja við sókn á þessu sviði án þess að raska grundvellinum, þ.e. frjálsri samkeppni og því sterka samkeppnisumhverfi sem er meginregla Evrópusambandsins.

Mér finnst, herra forseti, að við eigum að nota þetta tilefni sem snertir okkur með beinum hætti, kannski meira en margar tilskipanir, til að velta fyrir okkur þeirri alvarlegu stöðu sem við verðum í á næstu árum, að búa við það að taka upp ákvæði með þessum hætti án áhrifa. Það er ekki viðunandi fyrir okkur sem sjálfstæða þjóð að vera þiggjendur í þessum efnum. Mín bjargfasta skoðun er að við Íslendingar höfum mjög margt fram að færa á þessum vettvangi á sérsviðum okkar, þar sem við höfum bæði kunnáttu og vit. Við eigum að einhenda okkur í að koma þeim málstað að og halda á lofti málflutningi okkar á opinberum vettvangi. Það gæti orðið til gagns, ekki aðeins fyrir okkar þjóð heldur og fyrir nágrannaþjóðirnar.