Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:31:18 (1992)

2002-12-03 14:31:18# 128. lþ. 44.7 fundur 395. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn# (lögmenn) þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á VII. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 16. febrúar 1998, um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi.

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Hvað varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir að að vísa til greinargerðar sem fylgir þessari tillögu auk gerðarinnar sjálfrar. Tilskipuninni er ætlað að auðvelda lögmönnum á EES-svæðinu að starfa í öðru aðildarríki en þar sem þeir fengu starfsréttindi sín. Þeir munu þannig geta starfað undir starfsheiti heimalands síns og einnig er þeim auðveldað að fá starfsheiti gistiríkisins. Þessum lögmönnum er skylt að skrá sig í gistiríkinu og vera áfram skráðir í sínu heimalandi. Þeir skulu lúta lögum, siðareglum og viðurlögum sem í gistiríkinu gilda.

Vegna upptöku þessarar tilskipunar er unnið að því í dómsmrn. að gera breytingar á lögum um lögmenn, nr. 77/1998. Þær breytingar munu fyrst og fremst snúa að því að bæta ákvæði við lögin, um að þau taki einnig til þeirra lögmanna sem hér hafa rétt til að starfa á grundvelli tilskipana Evrópusambandsins og veita dómsmrh. heimild til að setja reglur um skráningu, skyldur, réttindi og störf þessara lögmanna. Hér er því augljóslega um mikilvægt réttindamál að ræða í frjálsri för starfsstétta milli landa. Það er á margan hátt athyglisvert að svo skuli jafnframt gilda um lögmenn. Það sýnir hversu miklar breytingar hafa orðið á löggjöf og þeirri staðreynd að lagareglur í hinum ýmsu Evrópuríkjum hafa verið samræmdar á afskaplega mörgum sviðum.

Ég vil, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.