Verkefni Umhverfisstofnunar

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:38:24 (1994)

2002-12-03 14:38:24# 128. lþ. 44.9 fundur 405. mál: #A verkefni Umhverfisstofnunar# (breyting ýmissa laga) frv. 164/2002, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:38]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna verkefna Umhverfisstofnunar. Með lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, var kveðið á um starfrækslu Umhverfisstofnunar sem tekur til starfa 1. janúar 2003. Stofnunin tekur yfir verkefni Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, veiðistjóraembættisins, dýraverndarráðs og stjórnsýsluhlutverk hreindýraráðs.

Starfshóp sem umhvrh. skipaði samkvæmt 2. lið ákvæðis til bráðabirgða í áðurnefndum lögum var m.a. falið að kanna hvort þörf væri á að gera frekari lagabreytingar en þegar höfðu verið gerðar varðandi þá starfsemi sem undir lögin falla. Byggir frv. þetta á tillögu starfshópsins.

Talið er nauðsynlegt að laga þá löggjöf sem Umhverfisstofnun er ætlað að annast framkvæmd á frekar að starfsemi stofnunarinnar. Einnig er talið rétt að ganga nokkuð lengra en gert er í lögum um Umhverfisstofnun í því að efla, einfalda og styrkja stjórnkerfi þessa málaflokks. Jafnframt er lagt til að samfara slíkum breytingum verði heiti Umhverfisstofnunar fært inn í þá löggjöf sem stofnuninni er ætlað að annast framkvæmd á.

Með lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, var dýraverndarráð, sem starfaði samkvæmt lögum um dýravernd, nr. 15/1994, lagt niður og var Umhverfisstofnun falin stjórn þessa málaflokks, enda talið tímabært að sérstakri stofnun yrði falin umsjón með dýravernd. Ekki er talin þörf á að starfandi verði sérstök nefnd Umhverfisstofnun til ráðgjafar hvað þann þátt varðar. Hins vegar er lagt til að skylt verði að hafa samráð við hlutaðeigandi aðila, hagmunaaðila og áhugasamtök um stefnumótandi mál.

Lagt er til að ráðgjafarnefnd um villt dýr verði lögð niður og verkefni hennar falið Umhverfisstofnun að því leyti sem um stjórnsýslu er að ræða og til Náttúrufræðistofnunar Íslands hvað varðar önnur verkefni. Í frv. þessu er skilið á milli stjórnsýsluverkefna annars vegar og rannsóknarverkefna hins vegar. Jafnframt er lagt til að skilið verði á milli ráðgjafar á vegum nefnda og stjórnsýslu. Hér er því um ákveðna lagasamræmingu að ræða. Þannig er lagt til að stjórnsýsla á vegum Breiðafjarðarnefndar sem starfar samkvæmt lögum um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995, verði færð til Umhverfisstofnunar.

Hreindýraráð sem starfar samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, var lagt niður með lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002. Lagt er til að ráðið starfi áfram sem ráðgefandi aðili en umhvn. Alþingis lagði áherslu á að ráðið yrði ekki lagt niður í áliti sínu sl. vor.

Að höfðu samráði við utanrrn. og dóms- og kirkjumrn. er lagt til að Umhverfisstofnun, í stað Hollustuverndar ríkisins nú, fari með eftirlit með framkvæmd laga um framkvæmd samnings um þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra, nr. 17/2000, og fari með framkvæmd samningsins. Innan hennar er þekking á málefninu að því er varðar eiturefni en ríkislögreglustjóri annast framkvæmd samningsins að því er varðar viðbúnað fyrir almenning. Jafnframt þykir rétt, þar sem Umhverfisstofnun heyrir undir umhvrn., að tekið sé fram að umhvrh. farið með yfirstjórn á framkvæmd hans í samstarfi við dómsmrh. og utanrrh.

Talið er æskilegt að breytingar þessar taki gildi frá og með 1. janúar 2003 þar sem hin nýja stofnun tekur þá til starfa.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frv. og legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhvn.