Verkefni Umhverfisstofnunar

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:49:22 (1997)

2002-12-03 14:49:22# 128. lþ. 44.9 fundur 405. mál: #A verkefni Umhverfisstofnunar# (breyting ýmissa laga) frv. 164/2002, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:49]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið. Þeir hv. þm. sem hafa tekið til máls draga það fram að málið hafi komi mjög seint inn í þingið. Hins vegar er frv. að mínu mati ekki mjög flókið mál. Það eru talsvert margar greinar en þær eru í bandormsformi þannig að verið er að hreinsa upp ýmis lög og setja orðið ,,Umhverfisstofnun`` í staðinn fyrir orðin ,,Náttúruvernd ríkisins``, ,,Hollustuvernd ríkisins`` o.s.frv. Meginþunginn í frv. eru svona sjálfsagðir hlutir. Þó eru þarna atriði sem nefndin þarf að skoða að sjálfsögðu og ég tel eðlilegt að hún geri það, en að mínu mati eru það ekki flókin mál.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagðist tortryggja ákveðna hluti, t.d. það að leggja niður dýraverndarráð. En nú er búið að leggja niður dýraverndarráð, það var gert síðasta vor. Menn greiddu atkvæði um það og þingið ákvað að leggja dýraverndarráð niður, það er nokkuð sem er búið og gert.

Einnig var því haldið fram að málið hefði verið flausturslega unnið í vor. Ég er ekki sammála því. Það var algjörlega meðvitað að reyna að vinna málið tiltölulega hratt vegna þess að það skapast alltaf óvissa hjá starfsmönnum ef svona sameining, eins og hér er um að ræða, á nokkrum stofnunum fer fram, að þá er ekki almennt talið æskilegt að slík sameining taki mjög langan tíma vegna þeirrar óvissu sem það skapar fyrir starfsmenn. Segja má að það sé almenn ánægja með stofnun Umhverfisstofnunar, að mér finnst, meðal starfsmanna og það er búið að vinna þar heilmikla vinnu. Búið er að útvega nýtt húsnæði sem stofnunin flytur inn í núna bráðlega á Suðurlandsbraut, mjög glæsilegt húsnæði, og búið er að leggja verulega fjármuni nýja inn til nýrrar Umhverfisstofnunar miðað við þá fjármuni sem fyrri stofnanir, sem Umhverfisstofnun hvílir á, höfðu til sinna verkefna, um 10% aukning er í fjárlagafrv., bæði til EES-tilskipana og til þjóðgarða, svo eitthvað sé nefnt. Ég tel því að þessi mál séu í afar góðum farvegi.

Hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni kom fram að sumt væri tekið til baka frá því að við ræddum þetta mál hér síðast í vor. Þegar við ræddum um þetta í þinginu í vor kom fram í umsögn og áliti frá umhvn. að hún teldi æskilegt að hreindýraráð starfaði áfram sem umsagnaraðili og við ákváðum að taka tillit til þessa í frv. því sem hér er flutt, og við gerum það. Það eru tillögur um, eins og hv. þm. geta lesið, að hreindýraráð muni starfa áfram sem ráðgefandi aðili.

Að mínu mati er æskilegt að þetta mál klárist fyrir jól þar sem Umhverfisstofnun tekur til starfa 1. janúar 2003. Ég tel að þingmenn geti skoðað þetta ágætlega á þeim tíma sem eftir er af þinghaldinu. Ef svo er ekki er svo sem ekkert mikið við því að segja, en að mínu mati er ekki um mjög flókið mál að ræða og ég tel að málið geti fengið eðlilega skoðun hjá umhvn. á þeim tíma sem eftir lifir til jóla og það náist að ræða við helstu hagsmunaaðila sem þessar breytingar snerta sem að mínu mati eru ekki mjög veigamiklar í frv.