Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:16:30 (2009)

2002-12-03 15:16:30# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:16]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel ekki að hér sé um ræða bann við því að selja eigur sínar. Hér er um að ræða tillögu um það að banna sölu á rjúpu til þess að takmarka veiðarnar. Ég tel mögulegt að framfylgja þessu en ég heyri að hv. þm. gerir ráð fyrir mjög ríkum brotavilja hjá veiðimönnum til að selja rjúpu þrátt fyrir bannið. Ég ber þá von í brjósti að veiðimenn fari eftir þessum lögum, verði þau samþykkt, og takmarki veiðar sínar. Það er alvarlegt ástand í rjúpnastofninum núna, hann er í lágmarki og við leggjum hér til að það verði bannað að selja rjúpu og að það verði líka bannað að stunda veiðar af fjórhjólum og snjósleðum. Menn hafa samt freistast til þess að gera það, m.a. vegna þess að lögin hafa ekki verið nógu skýr og einstaka aðilar hafa lesið náttúruverndarlögin en þar stendur að menn megi fara um jörð sé hún snævi þakin, sem sagt hvar sem er. Það stendur ekki í svokölluðum villidýralögum þannig að við ætlum að kveða sterkar á um þessi atriði með frv.