Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:27:26 (2011)

2002-12-03 15:27:26# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri að hv. þm. er í heildina þokkalega sáttur við þetta frv. En ég vil taka það fram vegna þeirra orða sem hér féllu í upphafi, að það væri betra seint en aldrei og það hefði fyrir löngu átt að vera búið að grípa þessara aðgerða, að það var ekki fyrr en í haust sem umhvrh. fékk tillögur um aðgerðir. Þær komu frá Náttúrufræðistofnun og voru sendar til ráðgjafarnefndarinnar um villt dýr sem kom með álit sitt --- ráðherra á að leita álits hennar á slíkum málum --- þann 13. september. Ég vil bara mótmæla því ef hér er verið að gefa í skyn að ráðherra hafi haft einhverjar sérstakar forsendur til þess að grípa til aðgerða fyrr. Ég fékk þessar tillögur í haust.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar á þessum nótum. Í sérstakri þáltill. sem þingmaðurinn flutti núna á haustdögum er talað á þessum nótum. Þar er sagt að þetta hafi verið tekið til umræðu í þinginu á síðasta hausti og þá hefði það verið borið við af ráðherra að það væri of seint að aðhafast nokkuð á því hausti. En það voru engar tillögur uppi þá. Ég vil bara taka það fram út af þessum orðum, svo að það sé alveg skýrt, að ráðherra hefur ekki fengið tillögur um að það ætti að grípa til aðgerða til verndar rjúpnastofninum fyrr en í haust. Og þá tökum við að mínu mati með algjörlega eðlilegum hætti á því og leggjum hér til ágætisaðgerðir sem vonandi verða til þess að rjúpnastofninn rétti úr kútnum. Menn hafa talið að hér væri jafnvel um 30% takmörkun á veiðiálagi að ræða, það er auðvitað voðalega erfitt að meta það, en þetta eru þó a.m.k. víðtækar aðgerðir.