Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:35:40 (2015)

2002-12-03 15:35:40# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., SI
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:35]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Eins og fram kemur í grg. með frv. er það mat Náttúrufræðistofnunar Íslands að rjúpum hafi fækkað verulega á liðnum áratugum, stofnsveiflur séu að sléttast út og rjúpnastofninn sé nú í sögulegu lágmarki. Og til að stemma stigu við þeirri fækkun lagði stofnunin til tvenns konar aðgerðir, þ.e. annars vegar að sala á rjúpum á almennum markaði yrði bönnuð og hins vegar að veiðitími rjúpu yrði styttur.

Hæstv. umhvrh. hefur fylgt ráðum stofnunarinnar í þessu frv. með því að kveða á um bann við því að bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir og af því leiðir að bannað er að hafa rjúpur til sölu í verslunum sem og á matseðli veitingahúsa. En bannið nær þó ekki til innfluttra rjúpna eða rjúpnaafurða. Það má selja innfluttar rjúpur en íslenskir veiðimenn mega ekki selja þá bráð sem þeir veiða. Enn fremur er lagt bann við því að stunda veiðar á fjórhólum og vélsleðum.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að efast um gagnsemi sölubanns til verndar rjúpunni. Mun vitlegra hefði verið að takmarka veiðitímabilið á þann hátt að leyfa ekki veiðar á rjúpu fyrr en 1. nóvember í stað 15. október eins og nú er. Reyndar er kveðið á um það í frv. að frá og með árinu 2003 og næstu fjögur árin þar á eftir verði einungis heimilt að veiða rjúpu frá 25. október til 12. desember, en ég held að það hefði átt að færa þetta til 1. nóvember. Með því að seinka tímabilinu þá tel ég að verulega mundi draga úr veiðinni því langmest veiði fer fram á þessum tveimur vikum. Meðan tíð er góð, birtuskilyrði betri en þegar nær dregur jólum og oftast er snjólaust um miðjan október, svo að skjannahvítar rjúpurnar eru eins og endurskinsmerki á auðri jörðu.

Í annan stað ætti að taka það til alvarlegrar athugunar að banna hunda á rjúpnaveiðum. Góðir veiðihundar eiga afskaplega auðvelt með að finna rjúpurnar og geta auðveldlega þefað uppi allar rjúpur á tilteknum svæðum.

En ég fagna því samt að hæstv. umhvrh. hefur horfið frá þeirri hugmynd sem hún kynnti hér fyrir nokkru að leggja til breytingar á byssum með því að krumpa hólkana svo að þær taki færri skot.

En mönnum ber saman um að til aðgerða þurfi að grípa til verndar rjúpunni og ég hef rætt við marga veiðimenn, bæði fyrir norðan og austan, og ber flestum saman um að stytting veiðitímabilsins, sérstaklega með því að taka framan af því sem og banna hunda við veiðarnar, gæfi hvað bestan árangur.