Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:45:51 (2017)

2002-12-03 15:45:51# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:45]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek fyrst og fremst til máls til að fagna þessu frv. til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Mér sem dýravini hefur í nokkur undanfarin ár liðið illa út af þessum gríðarlegu rjúpnaveiðum sem iðkaðar hafa verið og sérstaklega því hve margir eru farnir að stunda það að veiða rjúpur til að selja, sem er mjög ábatasamt, ég tala nú ekki um þegar menn hafa þeyst upp um heiðar og fjöll á vélknúnum ökutækjum. Jafnvel þótt það sé leyft á frosinni jörð á Íslandi þá hefur það verið mjög óhugnanlegt þegar þeyst hefur verið upp um fjöll og firnindi á eftir þessum litlu dýrum á vélknúnum ökutækjum, ég tala nú ekki um þegar hundar eru líka með í för sem hjálpa til við veiðarnar. Menn hafa því getað lagt alveg ótölulegan fjölda af rjúpu að velli á einum degi.

Ég fagna þess vegna sérstaklega að hér sé verið að banna að veiða rjúpu af vélknúnum ökutækjum. Ég verð að segja það að ég hef meiri trú á árangri af sölubanni en nokkrir þeir sem hafa talað hér á undan mér. Ég held að rjúpnastofninum stafi ekki hvað síst hætta af þessum stórtæku veiðimönnum sem veiða til að selja. Ef það legðist af, ég tala nú ekki um ef dragi stórlega úr því því það verður aldrei neitt stórkostlegt magn af rjúpu selt á svörtum markaði --- það vantar að vísu inn í þessi lög einhver ákvæði um viðurlög við sölubanninu.

Auðvitað er erfitt að framfylgja þessu. Ég var t.d. að hugsa um veitingastaði þar sem bornar eru fram rjúpur. Hvernig á að vera hægt að sanna að að þær séu útlendar? Á að lita þær bláar eða hvernig á að vera hægt að sanna það? Þær eru nú ekki framreiddar nema þá bara bringurnar. Hvernig er hægt að sanna að ... (Gripið fram í: Vegabréf.) Já, það þarf kannski að vera með rjúpnavegabréf, samanber hestavegabréfin. Það er ágætishugmynd.

Ég fagna sem sagt þessu frv. sérstaklega. Ég hefði viljað að í því væri líka ákvæði um styttingu veiðitíma. Mér skilst að vísu að það standi til. Ég vil ekki ganga svo langt að leggja til að þær verði veiddar í myrkri eins og kom fram hér áður á fundinum. En ég held að það sé mjög vænlegt að stytta veiðitíma rjúpu til viðbótar við þessi ákvæði sem hér eru tekin fram. (Gripið fram í: Þá leggur þú fram breytingartillögu um það.) Mér skildist reyndar að von væri á slíkum tillögum frá ráðuneytinu. Mér skildist það á máli hæstv. ráðherra í ræðu hennar áðan.

Þetta er gott frv. Auðvitað má segja að sum okkar hefðu óskað þess að Náttúrufræðistofnun og þeir aðilar sem um þessi mál fjalla hefðu tekið við sér fyrr því mér finnst hafa blasað við um nokkurra ára skeið hvað var að gerast. En nú er þetta komið fram og ég lýsi fullum stuðningi við frv. eins og það liggur hér fyrir.