Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 16:05:31 (2020)

2002-12-03 16:05:31# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[16:05]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég tel ekki um það að ræða í þessu tilviki að brotið sé á réttindum manna, þ.e. eignarrétti þeirra. Ég vil líka benda á að ég tel að hv. þm. sé fastur í einhverjum ,,ismum`` að þessu leyti. Sama ákvæði gildir t.d. um æðaregg. Það er bannað að selja æðaregg og hefur verið lengi í lögum. Ég hef ekki séð að þar hafi komið fram athugasemd um að brotið hafi verið á einhverjum sjálfsögðum réttindum þegna landsins. Ég get líka nefnt, þó það sé kannski ekki mjög skylt dæmi, að það er bannað að selja af heimaslátruðu. Ég veit ekki hvort hv. þm. telur að það sé brot á grundvallarréttindum manna.

Ég vil að það komi fram að ég tel að hér sé ekki verið að brjóta á neinum. Hins vegar töldum við að við hefðum ekki nægar lagaheimildir, samkvæmt núgildandi lögum, til að banna sölu á rjúpu. Þess vegna tökum við það inn í frv., til að þingið gefi þá heimild. Ég tel eðlilegt að menn skoði þetta í nefndinni en tek ekki undir með hv. þm. að hér sé lagt til að brjóta á einhverjum grundvallarréttindum manna.