Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 16:09:29 (2023)

2002-12-03 16:09:29# 128. lþ. 44.11 fundur 42. mál: #A réttindi sjúklinga# (biðtími) frv., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[16:09]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúlinga, nr. 74/1997, með síðari breytingum. Með þessu frv. leggjum við flutningsmenn til að lögfest verði hámarksbið sjúklinga eftir læknisaðgerð hér á landi.

Meðflutningsmenn mínir að þessu frv. eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Margrét Frímannsdóttir.

Í 1. gr. frv. er lagt til að 18. gr. laganna orðist sem hér segir:

,,Þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skal læknir sem hann leitar til gefa skýringar á biðinni ásamt upplýsingum um áætlaðan biðtíma og jafnframt gefa sjúklingi kost á bókun aðgerðar. Miða skal við að bið eftir aðgerð sé að jafnaði ekki lengri en þrír til sex mánuðir eftir eðli sjúkdóms.``

2. gr. gerir ráð fyrir að lög þessi öðlist þegar gildi.

Þegar frv. sem varð að lögum um réttindi sjúklinga var hér til umfjöllunar í þinginu lögðum við, þingmenn sem að þessu máli stöndum, til breytingu á frv. sem sneri að þessu, að lögfesta hámarksbið eftir aðgerð, þrjá til sex mánuði. Brtt. okkar náði þá ekki samþykki hér. Við leggjum nú þessa brtt. fram í þriðja sinn, en við lögðum hana einnig fram á 126. þingi.

Ýmis rök mæla með því að kveðið sé á um það í lögum hvað skuli að öllu jöfnu teljast hámarksbiðtími eftir aðgerð. Engar reglur eru til um þetta aðrar en verklagsreglur sjúkrahúsa og annarra heilsustofnana. Á sumum sviðum eru alls engar reglur til. Þetta fyrirkomulag verður að teljast ófullnægjandi þegar svo mikilvægt málefni er annars vegar.

Langur biðtími eftir aðgerð hefur í för með sér mikil óþægindi fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Vanlíðan, streita, kvíði og óvissa er algeng hjá þeim sjúklingum sem þurfa að bíða lengi eftir aðgerð. Þá upplifir fólk langa bið sem virðingarleysi við líf sitt og heilsu.

Langur biðtími hefur ekki einungis slæm áhrif á tilfinningalegt og líkamlegt ástand sjúklings. Viðurkennt er að biðlistar eru kostnaðarsamir bæði fyrir sjúklingana sjálfa og þjóðfélagið í heild. Hér er fyrst að nefna að sjúklingar eru oft frá vinnu vegna veikinda sinna. Löng bið eftir aðgerð hefur þau áhrif að vinnutap verður meira en ella. Það hefur oft alvarleg áhrif á fjárhag sjúklinga og fjölskyldna þeirra. Við þekkjum ótal dæmi þess að löng bið eftir aðgerð hafi haft alvarlegar afleiðingar á fjárhag þeirra heimila. Vinnutapið leiðir síðan til minni skatttekna ríkissjóðs og lyfjakostnaður Tryggingastofnunar eykst í hlutfalli við lengd veikindanna.

Auk þessa má nefna aukinn kostnað ríkis og sveitarfélaga vegna heimaþjónustu, heimahjúkrunar og ýmislegrar annarrar þjónustu. Gera má ráð fyrir að aðgerð verði umfangsmeiri og erfiðari og þar með kostnaðarsamari eftir því sem hún dregst lengur. Loks má benda á að aukið álag og fjölgun innlagna á bráðadeildir sjúkrahúsanna má að hluta rekja til biðlistanna. Það er oft svo að fólk kemst ekki inn í aðgerð nema vegna bráðatilvika, sem bráðasjúklingur. Það er auðvitað afleitt fyrir alla, bæði þá sem þurfa að sinna þeim og þá sem í þessu lenda.

Af þessu má sjá að langur biðtími er þjóðhagslega og heilsuhagfræðilega óhagkvæmur. Flutningsmenn gera sér grein fyrir því að ekki er unnt að setja einhlítar reglur sem gilda skuli við allar aðstæður. Ýmsar ástæður geta valdið því að biðtími eftir aðgerð verði langur, svo sem skortur á læknum með næga sérþekkingu, skortur á nauðsynlegum áhöldum og tækjum o.fl. Við slíkar aðstæður getur langur biðtími oft reynst óhjákvæmilegur. Af þeim orsökum er aðeins gerð tillaga um viðmiðunarákvæði um hámarksbiðtíma að öllu jöfnu.

Að mati flutningsmanna getur fjárskortur ekki réttlætt langan biðtíma. Ljóst er að biðlistar spara enga peninga. Einungis er verið að kasta peningum á glæ með myndun þeirra.

Víða erlendis hafa verið settar reglur um hámarksbið eftir aðgerðum og heilbrigðisþjónustu. Í Svíþjóð og Noregi hefur verið lögfestur þriggja mánaða hámarksbiðtími eftir aðgerð. Í Danmörku er biðtíminn tveir mánuðir. Það var lögfest í júlí í sumar. Þar eiga sjúklingar rétt á að fara annað til að fá læknisaðgerð líti út fyrir að biðin verði lengri en hámarksbiðtíminn. Þá greiðir hið opinbera fyrir aðgerðina sömu upphæð, samkvæmt DRG-mælingu, og upprunalega sjúkrahúsið hefði fengið. Þessi regla gildir annars staðar á Norðurlöndum þar sem hámarksbið hefur verið lögfest.

Eins og menn sem kunnugir eru heilbrigðiskerfinu vita eru menn langt komnir í að kostnaðargreina aðgerðir á sjúkrahúsunum. Talið er að búið verði að kostnaðargreina öll verk í heilbrigðiskerfinu 2004. Þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að lögfesta hámarksbið enda kom það fram á fundi með þingmönnum nú í haust, með stjórnendum Landspítala -- háskólasjúkrahúss, að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að lögfesta hámarksbið. Það hefur oft verið notað sem rök gegn því að lögfesta hámarksbið hér á landi að ekki sé búið að kostnaðargreina öll verk.

Ég vil geta þess, vegna þess að þegar þetta mál hefur komið til umræðu hafa menn talið erfiðara að gefa fólki hér á landi kost á að fara annað í aðgerðir, að það hefur verið reglan, t.d. í Danmörku, að vilji menn sækja læknisþjónustu til annarra landa, t.d. til Þýskalands eða nágrannalandanna, greiði sjúklingarnir sjálfir ferðakostnað en heilbrigðiskerfið greiði fyrir aðgerðina þá upphæð sem upprunalega sjúkrahúsið hefði fengið fyrir hana.

Við flutningsmenn þessa frv. leggjum áherslu á að sett verði viðmiðunarregla, að biðin eftir aðgerð verði ekki lengri en þrír til sex mánuðir. Við teljum það mikilvægt til að skapa samræmi og eyða óvissu um meðferð mála. Auk þess eykur það hagkvæmni og tryggir réttindi sjúklinga enn frekar en lögin gera nú.

Þarna erum við einnig að auka rétt sjúklinga í samræmi við réttindi sjúklinga annars staðar á Norðurlöndunum þó við göngum ekki eins langt í þessu frv. og gert er hjá Norðurlandaþjóðunum, eins og ég hef getið um, þar sem er þriggja mánaða bið og í Danmörku þar sem er tveggja mánaða bið.

Herra forseti. Ég vil leggja til að að lokinni umræðu um þetta frv. verði það sent til hv. heilbr.- og trn. Ég legg áherslu á að menn taki þetta alvarlega og samþykki hámarksbið eftir aðgerð hér á landi eins og við höfum lagt til. Enda er því ekkert til fyrirstöðu ef marka má orð stjórnenda á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.