Húsaleigubætur

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 16:28:51 (2026)

2002-12-03 16:28:51# 128. lþ. 44.12 fundur 43. mál: #A húsaleigubætur# (foreldrar með sameiginlega forsjá o.fl.) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[16:28]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Einarssyni fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Hann hefur fært enn ríkari rök fyrir því að menn taki nú á sig rögg í þeim nefndum sem þessi mál fara til og samþykki þessar breytingar því þarna er ákveðin mismunun í gangi gagnvart þegnunum. Við jafnaðarmenn viljum jafnan rétt. Við viljum ekki mismuna fólki eftir fjárhagsstöðu eða öðrum þáttum. Menn eiga að hafa jafnan aðgang að velferðarþjónustunni og til þess eru einmitt þessi mál lögð fram. Þarna er sem sagt verið að bæta réttindi námsmanna annars vegar og einstæðra foreldra með börn hins vegar sem eru í leiguhúsnæði. Tel ég mjög ríka ástæðu til þess að menn leggi sig nú fram um að samþykkja þessi tvö litlu frv. með vorinu.