Vatnalög

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 16:30:12 (2027)

2002-12-03 16:30:12# 128. lþ. 44.13 fundur 45. mál: #A vatnalög# (vatnaflutningar) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[16:30]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir. Hér er um að ræða endurflutt mál, sem áður hefur verið flutt á tveimur þingum, tveimur síðustu þingum, en var þá í hvorugt skiptið útrætt.

Breytingin er afar einföld, hún gengur út á tvennt. Annars vegar sé tekið inn í orðskýringargrein laganna orðið ,,vatnasvið`` og það skýrt sem landsvæði þar sem vatn safnast af í sameiginlegan meginfarveg vatnsfalls, og þá er ekki átt við að um sjálfstætt vatnsfall alla leið til sjávar þurfi að vera að ræða heldur að um meginfarveg eða meginþverá sé að ræða.

Og síðan að við 1. mgr. 50. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðist svo, með leyfi forseta:

,,Flutningur vatnsfalls með meira meðaltalsársrennsli en 4 rúmmetra á sekúndu úr fornum farvegi og yfir á annað vatnasvið er þó aldrei heimill nema að fengnu sérstöku samþykki Alþingis; sama gildir um vatnsmiðlun skv. 1. mgr. 68. gr. og 1. mgr. 69. gr.``

Þetta, herra forseti, þýðir þá að Alþingi þyrfti í hverju tilviki að samþykkja sérstaklega ef framkvæmdir fælu í sér vatnaflutninga af meiri stærðargráðu en þeirri sem hér um ræðir, þ.e. að til viðbótar öllum öðrum leyfum sem slíkum framkvæmdum eru yfirleitt samfara eða slíkar framkvæmdir fara eftir, eins og starfsleyfi og framkvæmdaleyfi, eða lagaheimildir ef um virkjanir er að ræða, þá kæmi einnig til sögunnar sérstakt samþykki Alþingis hvað varðar vatnaflutningana sjálfa.

Nú er kunnara en frá þurfi að segja að í bígerð eru mikil áform í þessum efnum hér á landi, áður óheyrð að stærðargráðu, og þar er að sjálfsögðu átt við fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun með tilheyrandi flutningi Jökulsár á Dal austur í Lagarfljót, og einnig fyrirhugaða Norðlingaöldumiðlun í Þjórsárverum sem mundi hafa í för með sér stórfellda röskun á náttúrulegu vatnafari og rennslisháttum á því svæði. Fyrri tíma tilfærslur á vatni eru smámunir einir í samanburði við það sem þarna er í bígerð, hvort heldur eru smábreytingar á rennsli áa vegna virkjana eða áveitna fyrr á tíð, eins og Flóaáveitan, þá er það allt harla smátt í samanburði við þessar hrikalegu framkvæmdir, að taka eitt stærsta og aurugasta jökulfljót landsins, Jökulsá á Dal, og færa hana milli héraða eða milli vatnasviða.

Hverjar sem lyktir þessara mála verða er eftir sem áður, herra forseti, brýn ástæða til að taka það til skoðunar og taka það fastari tökum en hingað til hefur verið gert ef taka á ákvarðanir um jafnstórfellda breytingu í náttúrunni og slíkir vatnaflutningar yfirleitt eru. Því hefur satt best að segja lítill gaumur verið gefinn á seinni árum og menn ekki alltaf áttað sig á þeirri sjálfstæðu tilveru sem vatnsföll sem slík lifa.

Vatnalögin frá 1923 eru að vísu hinn merkasti lagabálkur. Þrátt fyrir að þau séu komin nokkuð til ára sinna, að verða 80 ára gömul, þá halda flest ákvæði þeirra gildi sínu að fullu, þó að annað kannski skipti minna máli í dag eða reyni sjaldnar á það, eins og ákvæði um áveitur sem sett voru í þau lög af augljósum ástæðum á sínum tíma þar sem þá var talsvert um að menn væru að veita vatni á engi til aukinnar grassprettu og friðunar. Nú eru það fyrst og fremst virkjunarframkvæmdir sem líklegar eru til þess að valda sambærilegum hlutum, að menn taki vatn úr náttúrulegum farvegi sínum og færi það annað.

Höfundar vatnalaganna á sínum tíma hafa greinilega verið sér mjög vel meðvitaðir um mikilvægi þess að mannvirkjagerð raskaði ekki meiru í náttúrunni en óhjákvæmilegt væri, hvort heldur væri um að ræða vatnstöku til neyslu eða til virkjana eða áveitna. Það kemur fram á mörgum stöðum í lögunum að hvers kyns breytingum og raski skuli haldið í algjöru lágmarki og vatnsfarvegum aldrei breytt meira en óhjákvæmilegt sé. Hin almenna regla er svo skýrt mótuð í 1. mgr. 7. gr. laganna, en þar segir: ,,Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið.`` Síðan eru frávik frá þeirri meginreglu nánar útfærð í lögunum og þá fyrst og fremst það sem nauðsynlegt er talið vegna nýtingar vatnsorku eða vatnsmiðlunar. Þessi ákvæði er líka að finna í IV. kafla, um áveitur, að það sé eins lítið hróflað við náttúrulegum eða fornum rennslisháttum vatnsfalla og mögulegt er.

Nú er það næsta víst að menn hafi við setningu vatnalaganna 1923 ekki gert sér grein fyrir þeim hrikalegu áformum sem nú eru uppi, fyrst og fremst ef ráðist yrði í Kárahnjúkavirkjun, og reyndar eru á teikniborði í frumhugmyndum býsna stórkarlalegar hugmyndir um vatnaflutninga í tengslum við virkjanir nokkurra fleiri stórfljóta. Ég hef áður nefnt hina fráleitu framkvæmd, Norðlingaöldumiðlun í Þjórsárverum, þar sem taka á mestan hlutann af því vatni sem eftir er í náttúrulegum farvegi Þjórsár neðst í Þjórsárverum og flytja hann yfir í Kvíslaveitur, þó að sýnu alvarlegri en þeir vatnaflutningar séu í sjálfu sér þau miklu óafturkræfu og neikvæðu áhrif sem miðlunarlónið sjálft og síðan hækkandi vatnsborð Þjórsár þar fyrir ofan mundi hafa inn í framtíðina ef ráðist yrði í þessa fráleitu framkvæmd sem ég vona nú að verði ekki.

En menn hafa svo sem verið í ýmsum æfingum þarna áður. Kvíslaveitur eru í raun miklu meiri breyting á náttúrulegu rennslisfari á Þjórsárverasvæðinu að austan heldur en menn hafa kannski almennt viðurkennt. Landsvirkjun gerðist meira að segja svo stórhuga eða djörf að reyna að snúa við kvíslum úr Skjálfandafljóti uppi í Vonarskarði þannig að vatn félli suður af heiðum en ekki norður af. Það fór hljótt um þær tilraunir og ég man ekki til þess að þær hafi verið sérstaklega ræddar eða kynntar enda kannski fyrir daga mats á umhverfisáhrifum og nútímaviðhorfa í umhverfismálum sem þetta var reynt. En bara t.d. það er ákvörðun sem ég tel að ætti að yfirvega mjög vandlega og íhuga áður en menn færu út í slíkt, að reyna að snúa við vatnsföllum og færa þau hreinlega á milli landshluta eins og þar stóð til.

Það er þannig, herra forseti, að dálítil reynsla er af slíkum æfingum víða erlendis. Nefna má sem dæmi skelfilega hluti sem gerðir voru í Sovétríkjunum sálugu og einnig hafa menn í vissum tilvikum í Vesturheimi farið út í mikla hluti af þessu tagi og reynslan af slíku satt best að segja víða hörmuleg. Menn hafa með öllu vanmetið áhrifin af slíku og oft hefur orðið þar stórtjón í náttúrunni sem e.t.v. verður aldrei bætt.

Þetta frv. gerir sem sagt ráð fyrir ákveðnum öryggisventli getum við sagt í því sambandi að Alþingi sjálft komi þá sérstaklega að ákvörðunum í hverju einstöku tilviki sem meiri háttar vatnaflutningar væru fyrirhugaðir. Valin er hér sú viðmiðun, sem að sjálfsögðu má deila um, að miða við meðalársrennsli upp á 4 rúmmetra á sekúndu. Það er u.þ.b. meðalársrennsli Elliðaánna sem þarna er haft til viðmiðunar, að það séu vatnsföll af þeirri stærðargráðu eða stærri sem þetta taki til, einfaldlega vegna þess að ef um minni vatnsföll eða smákvíslar er að ræða er kannski varla ástæða til að hafa eins miklar áhyggjur af málum, umhverfisáhrifin væntanlega að sama skapi minni og þær framkvæmdir þá almennt séð eftir sem áður háðar mati á umhverfisáhrifum og skoðaðar sem slíkar. Þannig, herra forseti, yrði enginn slíkur flutningur leyfður nema með sérstöku samþykki Alþingis og vatnaflutningarnir sem slíkir fengju þá alltaf sérstaka skoðun og umfjöllun á Alþingi.

Þessu tengt er að sjálfsögðu og má nefna í sömu andrá vinna sú sem yfir stendur að gerð rammaáætlunar ,,Maður, nýting, náttúra``, um forgangsröðun virkjunarkosta. Þeirri vinnu vonast ræðumaður a.m.k. til að komi til með að tengjast í sumum tilvikum ákvörðun í framhaldinu um friðun vatnsfalla eða vatnasviða sem ég held að þurfi að taka á dagskrá hér á landi af mikilli alvöru. Menn hafa kannski gefið þeim verðmætum lítinn gaum sem fólgin væru í ósnortnum náttúrulegum eiginleikum vatnsfalla, rennslisháttum og ásýnd þeirra allri, en þetta hefur verið gert fyrir löngu víða erlendis. Þannig luku Norðmenn fyrir einum 20 árum eða meira sambærilegri eða svipaðri vinnu og nú stendur yfir hér, þ.e. að kortleggja og forgangsraða virkjunarkostum, skoða þá út frá umhverfisáhrifum og auðvitað hagkvæmni og öðrum þáttum, og flokka þá þannig niður og hafa slíkar upplýsingar tiltækar í sambandi við frekari ákvarðanir um eftir atvikum nýtingu vatnsfallanna eða friðun. Hér hefur þetta helst borið á góma í tengslum við umræður um stofnun þjóðgarða eða málefni þjóðgarða, friðlýstra svæða eða verndarsvæða. Segja má að nokkur vatnsföll eða hluti þeirra a.m.k. sé friðaður undir þeim formerkjum að tilheyra þjóðgörðum. Ég geri ekki ráð fyrir að menn færu að láta sér detta í hug að hrófla mikið við Öxará á Þingvöllum eða þess vegna Jökulsá í þjóðgarðinum í Jökulársgljúfrum. En þó er það nú ekki aldeilis þannig að Jökulsá á Fjöllum hafi fengist þar með viðurkennd sem friðað vatnsfall þó að hún renni að hluta til í þjóðgarði. Öðru nær, á teikniborðum hafa verið --- kannski ekki alveg upp á síðkastið en ekki fyrir ýkja löngu --- hugmyndir um stórfelldar virkjanir sem tengjast t.d. því vatnsfalli og reyndar virkjunum í efri hluta Hvítár þar sem Gullfoss er o.s.frv.

Taka má dæmi víðar að en frá Noregi um öðruvísi og skynsamlega vinnu í þessum efnum sem við Íslendingar gætum, þó seint sé, tekið okkur til eftirbreytni. Þannig er t.d. alllangt síðan að í Svíþjóð var ákveðið að hrófla ekki við þeim fáu, örfáu reyndar, stóru eða meiri háttar vatnsföllum eða fljótum sem þar eru eftir ómiðluð eða óröskuð hvað rennslishætti varðar. Svíar vöknuðu upp við vondan draum að þeir voru með ýmsum framkvæmdum, virkjunum, skipaskurðum og jafnvel mannvirkjum sem áður höfðu tengst fleytingu á timbri og öðru slíku, búnir að raska með einhverjum hætti að meira eða minna leyti rennslisháttum flestallra stærstu vatnsfalla í landinu. Ætli það láti ekki nærri að ein fjögur hafi verið eftir? Þá var tekin ákvörðun um að við þeim vatnasviðum yrði ekki hróflað. Það er í rauninni það sem ég held að þurfi að gera, að ákveða hvaða vatnasvið, vatnsföll frá upptökum til ósa með öllum sínum vatnasviðum, verði friðlýst sem slík hér á landi og þá burt séð frá því hvort þau falla síðan um þjóðgarða eða verndarsvæði eða ekki, heldur verði þau í sínum eigin rétti meðhöndluð með þeim hætti. Ég vil láta það koma hér fram, herra forseti, að ég tel t.d. að vatnsföll eins og Jökulsá á Fjöllum, með Kreppu og öðrum þverám, eigi að friðlýsa í heild sinni þannig að það hverfi út af borðinu að menn láti sér detta í hug að hrófla við slíkum gersemum sem þar eru. Sama má að sjálfsögðu segja um Hvítá og kvíslar og þverár allt frá Hvítárvatni, Kjalvegi og Kerlingarfjöllum þar til hún sameinast Soginu og reyndar áfram niður úr. Ætli það sé ekki nóg að gert á því vatnasvæði líka.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Þetta frv. talar fyrir sig sjálft. Ég get svo sem ekki sagt að ég sé sérlega bjartsýnn á að það fáist samþykkt einfaldlega vegna þess að hæstv. ríkisstjórn, eins og alkunna er, vill hafa frjálsar hendur um það að ráðskast með náttúru landsins eins og henni býður við að horfa í stóriðjuhugleiðingum sínum og mundi sjálfsagt líta á það sem hindrun í vegi síns olnbogarýmis eða athafnafrelsis á þessu sviði að þetta yrði lögtekið. En ég minni þó á að hér er ekki verið að fara fram á annað og meira en það að Alþingi komi að slíkum ákvörðunum og samþykki þær þannig að ekki er verið að ætlast til þess að valdið sé tekið af ráðandi meiri hluta þingsins á hverjum tíma. Hann hefði sitt að sjálfsögðu fram, enda annað ekki lýðræðislegt, en þetta mundi tryggja að ákvörðunin sem slík yrði tekin hér og fyrir henni þyrfti að fá sérstakt samþykki Alþingis sem ég tel að öll efni standi til í ljósi þess hversu stórar og varanlegar og óafturkræfar svona ákvarðanir geta verið.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu, herra forseti, verði málinu vísað til hv. umhvn.